Þor­björg ber þess sannar­lega merki að lifa sam­kvæmt því sem hún predikar. Nú þegar hún stendur á sex­tugu stundar hún fjöl­breytta hreyfingu, skorar reglu­lega á sjálfa sig í leit að hinu full­komna jafn­vægi og lítur svo sannar­lega út fyrir að vera 10 árum yngri ef vísa má í titil fyrstu bókar hennar. Bókarinnar sem seldist í tug­þúsundum ein­taka í út­gáfu­landinu Dan­mörku og hefur verið gefin út hér á landi og hinum Norður­löndunum. Bókina sem hún enn byggir nám­skeið sín og fyrir­lestra á: 10 árum yngri á 10 vikum.

Þessi at­orku­mikla kona hafði fyrir löngu getið sér gott orð í Dan­mörku þegar við Ís­lendingar fengum fyrst að njóta góðs af fróð­leik hennar. Hún býr í dag í báðum löndum og hefur gert frá 19 ára aldri en ræturnar liggja vestur og þakkar hún inn­byggðum krafti Vest­firðinga hvert hún hefur náð í dag.

Stoltur Horn­strendingur

„Ég er stoltur Horn­strendingur, ættuð frá Sæ­bóli í Aðal­vík í móður­ætt en ég veit ó­sköp lítið um föður­ætt mína. For­eldrar mínir skildu þegar ég var mjög ung og sam­skipti mín við föður minn voru í fram­haldinu lítil sem engin. Ég þarf ekki annað en að líta yfir móður­fólk mitt, til að sjá hvert ég sæki minn innri kraft, þetta er kraft­mikið fólk.“

Byggð í Aðal­vík lagðist af um mið­bik 20. aldarinnar en Þor­björg segir fjöl­skylduna sækja mikið þangað og enn eiga þar hús sem þau hlúa að í sam­einingu. „Þangað fer ég til að hlaða batteríin, þar er ekkert síma­sam­band, ekkert raf­magn og engin net­tenging. Þar eru ekki einu sinni vegir svo komast þarf að á gúmmí­bát og hafa með sér allar vistir nema það sem maður getur veitt eða tínt eins og jurtir sem ég hef gaman af að prófa.“ Þor­björg segist hafa sterka náttúru­tengingu við Aðal­vík, þar hafi hún byrjað að stunda sjó­böð og mikið gengið á fjöll. „Ég tengi líka mikið við ein­veruna þar og hef átt mjög góð sam­töl við sjálfa mig á þessum stað þar sem ég hef getað greitt úr mínum málum.“

Á­takan­legur elds­voði í Aðal­vík

Hús fjöl­skyldunnar að Sæ­bóli er reist árið 1992, löngu eftir að byggð lagðist af á svæðinu. Áður stóð þar rúm­lega aldar­gamalt hús sem varð eldi að bráð þegar Þor­björg var þar stödd á­samt tveimur dætra sinna og móður. Það tekur aug­ljós­lega á Þor­björgu að rifja upp elds­voðann þar sem þær fjórar þurftu að forða sér með hraði úr logandi timbur­húsinu sem reyndist mikill elds­matur.

„Ég þurfti að henda dætrunum út um glugga á nær­buxunum og koma svo móður minni út sem eins og sannur skip­stjóri ætlaði síðust að yfir­gefa sökkvandi skip.“ Fólk úr nær­liggjandi húsum reyndi að að­stoða við að slökkva eldinn en allt kom fyrir ekki. „Það var á­takan­legt að horfa upp á mömmu og systur hennar standa í faðm­lögum og horfa upp á æsku­heimili sitt fuðra upp á innan við klukku­stund.“

Þorbjörg hefur alltaf haft mikinn áhuga á næringu og heilsu og gefið út fjölmargar bækur um efnið hér á landi.
Fréttablaðið/Ernir

Send til Dan­merkur fjögurra ára

Eftir skilnað for­eldra sinna var Þor­björg reglu­lega send til móður­systur sinnar í Dan­mörku enda stóð móðir hennar í at­vinnu­rekstri ein með fjögur börn. „Ég var ekki nema fjögurra ára þegar ég fór fyrst þangað til dvalar í sex mánuði og kom heim al­talandi á dönsku.“ Í fram­haldi varði Tobba þar flestum sumrum og svo fór að 19 ára gömul tók hún á­kvörðun um að flytja til Dan­merkur þar sem hún lauk mennta­skóla. „Ég hafði kynnst dönskum manni, Jörgen, sumarið áður og með okkur tekist svo rosa­legar ástir að ég á­kvað að flytja til hans í Kaup­manna­höfn. Hann var tölu­vert eldri en ég, eða þrí­tugur, og ég var hálf­gerður krakki en þó með tals­verða lífs­reynslu að baki.

Hann flutti svo í danska kommúnu og ég var ein í í­búðinni um hríð sem gaf mér tæki­færi til að ein­beita mér að náminu og eigin þroska.“ Að námi loknu héldu þau svo saman til Norður-Afríku þar sem þau ferðuðust í hálft ár og drukku í sig ó­líka menninguna. „Þetta var eins og að koma tvö til þrjú hundruð ár aftur í tímann og mikil lífs­reynsla.“

Stóð uppi slypp og snauð 43 ára

Þor­björg og Jörgen hófu svo form­lega sam­búð við komuna til baka til Dan­merkur og entist hún næstu 25 árin og eiga þau þrjár dætur saman. „Okkar sam­band var lengi vel gott en ég þroskaðist í burtu frá honum og vildi annað. Svo fór því að við enduðum okkar sam­band í mesta bróð­erni fyrir 15 árum, þegar yngsta dóttir okkar var 10 ára gömul. Við það breyttist líf mitt mikið. Ég hafði búið við mikið öryggi, við áttum yndis­legt hús í norður­hluta Kaup­manna­hafnar og maðurinn minn þénaði vel.“

Þor­björg hafði lært hjúkrunar­fræði og í fram­haldi næringar­fræði en þangað hafði hugurinn alltaf stefnt og hjúkrunar­fræði var í hennar huga mikil­vægur grunnur. „Ég hafði starfað við ráð­gjöf og kennt næringar­fræði en í raun leit ég á þetta sem á­huga­mál og réði því hversu mikið ég vann. Eftir að ég skildi var þó annað uppi á teningnum enda hafði ég gengið út úr sam­bandinu með lítið sem ekkert, þjökuð af sam­visku­biti yfir að vilja fara frá heimilinu. Mig langaði bara að labba í burtu án þess að skapa meira vesen en eftir á að hyggja var þetta auð­vitað kjána­legt af mér. Ég stóð uppi slypp og snauð 43 ára gömul og þurfti virki­lega að fara að gera al­vöru úr starfi mínu og aktív­era biss­ness­genið í mér.“

Hús fjölskyldunnar í Aðalvík þar sem Þorbjörg fer til að hlaða batteríin.

Fyrsta bókin olli byltingu

Þor­björg fór að skrifa greinar í blöð til að koma sér á fram­færi og fjallaði ein þeirra um tengsl matar­æðis við yngingar­mátt líkamans. „Þetta hafði enginn gert áður því öll um­ræða um hollt matar­æði var á ein­hvern hátt tengd megrun. Ég hafði alla mína vit­neskju frá sam­tökum um „functional medicine“ í Banda­ríkjunum sem urðu mér mikill inn­blástur. Eftir birtingu greinarinnar var haft sam­band við mig frá stærstu og elstu bóka­út­gáfu Dan­merkur og mér boðið að skrifa bók um efnið. Þó að til­boðið hafi komið flatt upp á mig var ég fljót að segja já enda þurfti ég að afla mér tekna. Skrifin reyndust mér auð­veld enda var ég í raun gangandi al­fræði­orða­bók um efnið.

Bókin, 10 árum yngri á 10 vikum, kom svo út árið 2007 og mér að ó­vörum hratt hún af stað byltingu og var endur­prentuð fimm sinnum í tug­þúsundum ein­taka.“ Í kjöl­farið var Þor­björg orðin þekkt nafn í Dan­mörku og var vin­sæll fyrir­lesari þar og í ná­granna­löndunum þar sem bókin var jafn­framt gefin út. „Þetta var í raun kveikjan að mínu starfi í dag en enn þann dag í dag byggi ég fyrir­lestra og nám­skeið á þessari bók enda var efni hennar langt á undan sinni sam­tíð.“

Veitinga­reksturinn gekk ekki

Þor­björg hefur síðan gefið út fjöl­margar bækur um matar­æði og heilsu­tengd mál­efni og í gegnum tíðina verið með annan fótinn hér á landi. „Ég var hér stödd árið 2016 þegar fjár­festir leitar til mín með sam­vinnu í huga við opnun veitinga­staðar og úr því varð til veitinga­húsið Yoga Food við Grens­ás­veg sem var opnað undir lok árs 2016. Þetta var mjög fal­legur staður og lofandi veitinga­hús þar sem boðið var upp á mat eftir mínum upp­skriftum. Maturinn var 90 prósent vegan, sykur- og glúten­laus sem mér fannst skemmti­leg til­raun. Það var tekið vel á móti þessu og ég gaf mig alla í verk­efnið. En því miður gekk þetta ekki upp og fjár­festirinn dró sig mjög skyndi­lega út sem kom mér al­gjör­lega í opna skjöldu. Veitinga­staðnum var lokað eftir tæpt ár í rekstri en ég hafði séð fyrir mér að hug­myndin fengi að sanna sig í lengri tíma og það hefði verið spennandi að sjá hvað hefði komið út úr því.“

Þorbjörg segir sjóböð örugga leið til að koma sér af stað.

Veitinga­reksturinn gekk ekki

Þor­björg hefur síðan gefið út fjöl­margar bækur um matar­æði og heilsu­tengd mál­efni og í gegnum tíðina verið með annan fótinn hér á landi. „Ég var hér stödd árið 2016 þegar fjár­festir leitar til mín með sam­vinnu í huga við opnun veitinga­staðar og úr því varð til veitinga­húsið Yoga Food við Grens­ás­veg sem var opnað undir lok árs 2016. Þetta var mjög fal­legur staður og lofandi veitinga­hús þar sem boðið var upp á mat eftir mínum upp­skriftum. Maturinn var 90 prósent vegan, sykur- og glúten­laus sem mér fannst skemmti­leg til­raun. Það var tekið vel á móti þessu og ég gaf mig alla í verk­efnið. En því miður gekk þetta ekki upp og fjár­festirinn dró sig mjög skyndi­lega út sem kom mér al­gjör­lega í opna skjöldu. Veitinga­staðnum var lokað eftir tæpt ár í rekstri en ég hafði séð fyrir mér að hug­myndin fengi að sanna sig í lengri tíma og það hefði verið spennandi að sjá hvað hefði komið út úr því.“

Sjórinn slökkti á sjálfs­vor­kunn

„Þetta var svo­lítill skellur fyrir mig per­sónu­lega og í raun á­fall sem jafn­framt fylgdi á­kveðin skömm. Ég var hálf­dofin, ég hafði unnið mikið í langan tíma og bundið miklar vonir við þetta verk­efni en skyndi­lega hafði ég ekkert að gera. Það var bara ekkert. Ég á­kvað að leyfa mér að vera þreytt og sorg­mædd og gefa mér tíma í að komast yfir á­fallið. Ég átti það alveg inni og næsta hálfa árið gerði ég ekkert nema hlúa að sjálfri mér. Ég leyfði mér að sofa þegar ég vildi sofa og fór í langa göngu­túra. Á göngu­ferðum mínum var ég alltaf með eitt­hvað í eyrunum; sögur, upp­byggjandi efni eða jafn­vel reyfara. Ég tók líka að stunda sjó­böð af fullum krafti um há­vetur.

Ég segi það fullum fetum að ef það er eitt­hvað sem getur komið manni upp úr sjálfs­vor­kunnar­hugsunum þá er það kaldur sjórinn. Ég er auð­vitað ekki að segja að konur séu endi­lega í sjálfs­vor­kunn þegar nei­kvæðar hugsanir banka upp á en sjálf fann ég fyrir því að hugurinn fór þangað og spurði hvers vegna þetta hefði komið fyrir mig. Þó að í raun hafi ekkert komið fyrir mig. Kalt bað leysir slíkar hugsanir auð­veld­lega. Kuldinn tekur yfir og núll­stillir allar hugsanir og maður getur lítið hugsað annað en: „Vá, hvað þetta er kalt.“ Blóð­flæði og gleði­hor­mónar fljóta um meltingar­kerfið og upp í heilann svo varla er annað hægt en að vera glaður á eftir.“

Aldrei aftur í veitinga­bransann

„Fátt vakti á­huga minn á þessum tíma og kannski má kalla þetta kulnun. Ég passaði mig þó á að fara hvorki í fórnar­lambs­hlut­verkið né næra reiði innra með mér. Ég beindi huganum frekar að því hvað þetta væri að kenna mér og hvernig ég ætlaði að mæta þessu streitu­á­standi sem ég var aug­ljós­lega komin í. Ég kom á endanum út úr þessu með heil­mikla reynslu sem ég get svo nýtt mér í annað. Ég stend klár­lega sterkari eftir þessa reynslu og einn lær­dómurinn er að ég ætla aldrei aftur í veitinga­bransann!“ segir Þor­björg og skellir upp úr. „Þetta er ekki bara töff bransi, hann er líka svo­lítið skítugur.“

Þegar Þorbjörg var að jafna sig eftir áfallið fór hún að stunda sjóböð.
Fréttablaðið/Ernir

Varð sjálf til­rauna­verk­efni

Á löngum göngum sínum hlustaði Þor­björg á ýmiss konar efni og þar á meðal hlað­vörp þar sem fjallað var um hið vin­sæla ketó fæði og vakti um­ræðan á­huga hennar. „Ég fór í fram­haldi að hlusta á og lesa allt sem ég komst yfir um ketó matar­æðið. Ég prófaði matar­æðið sjálf með fram þessum bata mínum og gerði sjálfa mig þannig að til­rauna­verk­efni. Það bara virkaði svona rosa­lega vel á mig! Sér­stak­lega á hugann sem var fyrir í hálf­gerðum lama­sessi og allt of margar hugsanir í gangi.“

Þor­björg segir breytinguna ekki hafa verið erfiða enda hafi hún búið að góðum grunni fyrir. „Þó er ég og verð alltaf sykur­fíkill og þarf að hafa hömlur á mér enda lít ég á sykur­fíkn sem hverja aðra fíkn og held að við verðum að fara að viður­kenna hana sem slíka. Ég datt í minn sykur á þessum tíma sem var alls ekki að flýta fyrir batanum.

En þegar ég fór alla leið í ketó matar­æðinu tók ég allan sykur og nánast öll kol­vetni út og bætti við góðum próteinum og góðri fitu. Þetta á­samt sjó­böðunum og jóga gerði það að verkum að mér fór að líða frá­bær­lega. Hugur minn varð skýr og ein­beittur og orkan mikil. Minnið varð betra en á meðan ég var í þessu mikla streitu­á­standi fann ég fyrir því hvernig skamm­tíma­minnið dalaði veru­lega. Ég gleymdi nöfnum á fólki sem ég þekki og svo fram­vegis. Líkaminn breyttist líka, ég grenntist og sykurfitan sem var farin að setjast á magann á mér eins og hún gerir, hvarf og ég styrktist öll.“ Eftir þessa reynslu var Þor­björg á­kveðin í að skrifa bók um þennan lífs­stíl og kom bókin Ketó­flex 3-3-1 út nú á dögunum.

Mæðgurnar Telma Pil, Ásta Lea, Þorbjörg oh Ída BJörg.

Matar­æði ekki baggi eða kúr

„Fólk spyr hvað ketó­flex sé og ég bendi því á að það er ekki bara matar­æði. Mig langar að fólk sjái að matar­æði geti verið ferða­lag og þurfi ekki að vera ein­hver baggi eða kúr sem fólk notar sem refsingu eftir að hafa til dæmis fitnað. Ég veit að það eru margir sem dæma ketó matar­æði sem of strangt og að erfitt sé að halda sér við það til lengdar. Ég spyr á móti: Af hverju er ekki allt í lagi að hafa smá væntingar til sjálfs síns? Já, þetta getur tekið á en má ekki að­eins hafa fyrir hlutunum? Þannig er lífið og við höfum gott af því að þurfa að beita okkur aga,“ segir Þor­björg á­kveðin.

„Við vitum að lág­kol­vetna­fæði hefur góð á­hrif á okkur, við vitum líka að fimm­tíu prósent þjóðarinnar eru of feit. Þurfum við ekki að gera eitt­hvað í því? Er það ketó matar­æðið eða lág­kol­vetna matar­æðið sem er skrítið? Er það ekki frekar hið venju­lega fæði sem flestir eru á sem er skrítið? Það gerir okkur of feit, veldur bólgum og meltingar­truflunum og sykur­sýki II. Það þarf ekki að hafa mikið fyrir því að út­vega sér það fæði eða að borða það en það þarf tölu­vert að hafa fyrir því að takast á við af­leiðingar neyslu þess seinna meir.“ Ketó­flex er lífs­stíll sem Þor­björg hefur sjálf hannað og fjallar um í bók sinni og gengur út á að til­einka sér hefð­bundið ketó­fæði þrjá daga vikunnar, kol­vetnis­endur­næringu eða hleðslu í þrjá daga og svo einn frjálsan dag.