Félagið BDSM á Íslandi segir í yfirlýsingu að það eigi ekki að gera börnum upp kynferðislegar hvatir þótt þau vilji klæðast Hatara-búningum.

„Fyrir þeim eru Hatarabúningar ekkert annað en Hatarabúningar alveg eins og Súpermannbúningar eru Súpermannbúningar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir enn fremur að svartur klæðnaður, leður og gaddar, geti vísað til valds og kúgunar í vestrænni menningu. Klæðnaðurinn hafi þó líka verið notaður af þeim sem séu í uppreisn eða sé merki um andóf.

„Svartur hefur löngum verið litur yfirvalds, lögreglu og dómara og því vekur hann upp hughrif um hörku og kalt viðmót. Gaddar og leðurólar ýkja þessi hughrif. Þessi klæðnaður er þó ekki síður notaður af jaðarsettum hópum, sem einhvers konar uppreisn eða merki um andóf gegn þeim mjúku, pastellituðu samfélagsfjötrum sem í raun halda okkur öllum niðri. Pönkarar, þungarokkarar og gotharar eru dæmi um hópa sem nota þessi tákn, hver gerir þau að sínum á einhvern hátt og merkingin er misdjúpstæð eins og gengur,“ segir í yfirlýsingunni.

Að gera börnum upp skömm gæti skaðað þau

Þar segir að börn séu hrifnæm og séu oft á tíðum fljót að máta við sig það sem vekur athygli þeirra í menningunni. Það sé ekkert nýtt og ekkert ljótt. Það séu einfaldlega börn að láta eins og börn láta og það eigi ekki að gera þeim upp kynferðislegar hvatir.

Þar segir að það eina sem gæti hugsanlega skaðað þau í sambandi við að þau klæði sig upp í slíka búninga væri ef að einhver, sem þau þekki náið eða einhver sem þau taki mark á, bregðist harkalega við því að þau klæðist slíkum búningi eða kæmi inn hjá þeim skömm „sem þau skilja ekkert í, því þau hafa ekki þessa kynferðislegu tengingu.“

Í yfirlýsingunni segir að það eitt að klæðast leðurgalla eða latexsamfestingi geri mann ekki sjálfkrafa að BDSM manneskju, alveg eins og að maður verður ekki „slökkviliðsmaður við það eitt að fara í slökkviliðsbúning.“

Segir að lokum að þau neiti því ekki að margt BDSM-fólk hafi ánægju af því að klæða sig upp í búninga sem geti á sama tíma haft einhverja kynferðislega merkingu fyrir þau.

„Fjölmargir upplifa sig kynþokkafyllri en ella í t.d. leðri, latexi eða vinnufatnaði. Enn aðrir hafa hreinlega blæti fyrir ákveðnum gerðum skófatnaðar, regnfatnaði eða blúndum svo eitthvað sé nefnt. Þetta á alltsaman heima undir svartri og glansandi regnhlíf BDSM alveg eins og margt annað mun sérkennilegra,“ segir í yfirlýsingunni.

BDSM snýst um margt annað en að klæða sig í búning

Þar segir að BDSM snúist um margt annað en að klæða sig í búning. Það snúist um samskipti fólks og gangi út á að finna „fegurð, nánd og innileika með því að sættast við og jafnvel deila sínum dýpstu og skrýtnustu kenndum. BDSM snýst um að vera maður sjálfur á fordómalausan hátt. BDSM snýst um að vera ekki hræddur við að vera viðkvæmur og berskjaldaður og því gengur það í eðli sínu út á traust. Það að leika sér með táknmyndir sem einhverjir tengja við illsku, gerir mann ekki illan eða hatursfullan. Að dæma fólk illt fyrir slíkt er mun nær því að vera alvöru hatur,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingu BDSM á Íslandi má lesa hér að neðan í heild sinni.