Ó­prúttnir aðilar brutust inn í skart­gripa­verslun Hildar Haf­stein á Klappar­stíg klukkan sjö í gær­morgun og létu greipar sópa.

„Við erum enn­þá að fara yfir það hverju var stolið. Ég er með öryggis­kerfi sem fór af stað um leið þegar, þeir eða þau, brjóta sér leið inn svo þau hafa greini­lega ekki haft mikinn tíma“ segir Hildur í sam­tali við Frétta­blaðið. Securitas hafði samband við Hildi og svo var lögreglan kölluð til. Enn hefur ekki komið í ljós hver var að verki.

„Þau brjóta bæði hurðina og rúðu á búðinni. Þannig þau hafa haft eitt­hvað fyrir þessu. Þau skríða í gegnum gatið á hurðinni, hreinsa allt úr glugganum og allt af af­greiðslu­borðinu en gera þetta greini­lega í flýti því það er öllu rutt út um allt.“

„Það lítur út fyrir að það hafi bara verið tekið það sem hendi var næst því þeir ryðja stöndum og skrauti með líka,“ segir hún enn fremur.

Þjófarnir brutu glerið í hurðinni og fóru þannig inn í verslunina.
Ljósmynd/aðsend

„Þetta er ömur­leg tíma­setning“

Hún segir að ránið virðist ekki hafa verið út­pælt þar sem skápar voru ekki opnaðir. Þjófarnir fóru heldur ekki í af­greiðslu­kassann. „Þetta var örugg­lega ein­hver ör­vænting,“ segir Hildur og bætir við að þetta gæti ekki hafa komið á verra tíma.

„Þetta gekk ansi harka­lega á jóla­lagerinn hjá okkur. Þetta er ömur­leg tíma­setning. Þetta er líka smá árás og frekar ó­þægi­legt.“

Hildur sem er skart­gripa­hönnuður hannar sínar vörur sjálf og er því bara um sér­hæfða vöru að ræða sem sem ætti að þekkjast hér­lendis.

„Maður veit ekki hvað býr að baki, að hvernig ætlunin er að koma þessu í verð. Frekar sorg­legt allt saman.“

Heldur ó­trauð á­fram

Hildur er búin að hafa sam­band við tryggingar­fé­lagið sitt um að laga hurðina og gluggann. Það tekur hins vegar viku til tíu daga að fá nýja rúðu.

Hildur segist enn eiga heil­mikið af vöru og von er á meiru.

„Ég á nóg af vöru, það verður opið og opnunar­tíminn lengist um miðjan mánuð. Ég er líka með net­búð sem er opin allan sólar­hringinn,“ segir Hildur sem stefnir að því að halda jóla­sölunni á­fram ó­trauð.