Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir Landspítalann ekki ráða við stöðuna í kórónaveirufaraldrinum eins og hún er í dag. Síðastliðinn sólarhring greindust 96 manns með Covid-19.

Kári telur það ekki hafa verið mistök að aflétta takmörkunum þar sem stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld verði að bregðast við ástandinu að hverju sinni.

„Við léttum, herðum, léttum og herðum í býsna mörgum þrepum þangað til að þessi pest er farin. Við verðum ósköp einfaldlega að bregðast við því ástandi sem er hverju sinni,“ segir Kári í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

Eðlilegt að Mári hafi farið „að væla“

Kári segist hafa tekið stöðuna með Má Kristjánssyni, yfirlækni á smitsjúkadómadeild Landspítalans

„Hann eyddi töluvert mörgum orðum í að útskýra fyrir mér að hann væri ekki að væla. Síðan fór hann að væla. Sem er ósköp eðlilegt vegna þess að ástandið er svo erfitt,“ segir Kári sem áréttar að honum finnst spítalinn hafa staðið sig stórkostlega vel. Segir hann smitsjúkdómadeildina og Covid-göngudeildina vera afreksdeildir innan Landspítalans sem þjóðin ætti að vera þakklát fyrir en nú sé staðan þannig að Landspítalinn ráði ekki við meira.

Í gær ræddi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um bólusetningar og sagði þær alls ekki hafa verið til einskis. Aftur á móti voru öll bóluefnin þróuð til að tækla fyrri afbrigði af kórónaveirunni.

Kári spáir því að annars konar bóluefni verði þróuð til að draga verulega úr smitum í staðinn fyrir að draga úr alvarlegum einkennum. Hann reiknar einnig með því að lyf gegn Covid-19 komi á markaðinn á næsta ári.

„Við bjuggumst við því allflest að þegar búið væri að bólusetja 70 prósent af þjóðinni myndi nást einhvers konar hjarðónæmi. Nú er staðreyndin sú að bólusetning minnkar líkur að menn smitist en ekki nógu mikið til að það eitt nægi.“

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala,
Fréttablaðið/Anton Brink

Fylgstu með viðtalinu við Kára í heild sinni á Hringbraut í kvöld.