Ólafur Þ. Harðar­son stjórn­mála­fræði­prófessor lenti líkt og fjöl­margir aðrir borgar­búar í langri bið­röð í um­ferðinni í dag eftir að snjór féll og hamlaði aksturs­skil­yrðum. Einkum voru það illa búnir bílar að sögn lög­reglu sem töfðu för annarra.

Ríkis­út­varpið hafði boðað prófessorinn í við­tal. Munaði minnstu að Ólafur stæði ekki við skuld­bindingar sínar, því það tók hann heilar 40 mínútur að aka frá Ljós­valla­götu að út­varps­húsinu, Efsta­leiti. Bílarnir siluðust á­fram á hraða snigilsins.

„En náði í tæka tíð. Það var hlýtt og gott í bílnum - alveg eins og í bóka-bíl­skúr mínum,“ skrifar Ólafur á Face­book í at­huga­semd við mynd sem Bogi Ágústs­son birti af vini sínum létt­klæddum í út­varps­húsinu þrátt fyrir snjóinn.

Ólafur hefur sér­stakt dá­læti á stutt­buxum og lætur veður­guðina ekki segja sér fyrir verkum.