Álfheiður dóttir Arnar Ingólfssonar, mannsins sem fannst látinn í Breiðholti í lok ágúst, segir föður sinn hafa verið einfara. Fjölskylda hans hafi verið í litlu sem engu sambandi við hann og hafi því enginn lýst eftir honum. Álfheiður segist hafa verið eina barnið hans sem var í einhverju sambandi við hann.

„Ég talaði síðast við hann þann 15. mars. Hann var einfari og var ekki í sambandi við neinn nema mig. Oft heyrði maður ekki í honum í langan tíma og þess vegna var ekki óvenjulegt að heyra ekkert í honum. Hann vildi vera einn,“ segir Álfheiður í samtali við Fréttablaðið.

DNA sent til Svíþjóðar

Rannsókn lögreglu hefur tekið lengri tíma en vanalega vegna þess hve illa útleikið líkið var þegar það fannst. Álfheiður bíður enn eftir upplýsingum frá lögreglu um dánarorsök. Skilríki Arnar fundust á líkinu og hafði því lögreglan samband við Álfheiði.

„Þetta var léttir að fá staðfest að þetta væri pabbi minn,“ segir hún.

„Lögreglan tók DNA sýni úr mér til að ganga úr skugga að þetta hafi verið hann og sendi sýnið til Svíþjóðar. Líkið var svo illa útleikið því það hefði verið úti svo lengi. Ekkert andlit og hvorki tennur né fingraför til þess að bera kennsl á hann. Þess vegna tók þetta fjórar vikur í stað tveggja. Hann var alla vega með skilríki og lykla að íbúðinni á sér. Ég vissi alveg að þetta væri hann en það var gott að fá staðfestingu.“

Álfheiður Arnardóttir.
Mynd/Aðsend

Fór aldrei þessa leið

Hún segir föður sinn hafa oft lagt leið sína frá Írabakka að Mjódd og hafi þótt skrýtið að líkið hafi fundist í rjóðri fyrir neðan Erluhóla.

„Ég skil ekkert hvernig hann endaði þarna. Hann hafði víst keypt sér eitthvað að borða og var með innkaupapoka með mjólkurfernum. En hann fór aldrei þessa leið. Hann var með gigt og það var kalt úti. Hann gæti hafa skroppið í verslun seint að kvöldi til og hafi farið út af vegi til að kasta af sér vatni. Ég veit það ekki. Ég bíð enn eftir að heyra um dánarorsök.“ segir hún.

Aðspurð hvort faðir hennar hafi verið veikur síðustu vikurnar segir Álfheiður að hann hafi bara verið gamall maður sem hafi þó verið duglegur að ganga. „Hann gæti hafa fengið fyrir hjartað.“

Kaus að vera einn

Álfheiður segir að Örn hafi verið ófélagslyndur og kosið að vera einn.

„Hann vildi bara vera einn og það var ekkert rætt um pabba innan fjölskyldunnar. Hann starfaði sem leigubílstjóri í mörg ár, var drykkjumaður og gerði grín að því sjálfur. Það er ekkert leyndarmál að pabbi var alkóhólisti,“ segir Álfheiður og tekur fram að síðustu árin hafi faðir hennar verið bindindismaður.

„Þó hann hafi verið ómannblendinn þá var hann hnyttinn og orðheppinn. Hann hafði engin áhugamál en hann var skemmtilegur og ég kallaði hann alltaf Adda,“ segir Álfheiður.

Örn bjó í Írakbakka (bleiki hringurinn) og líkið fannst í rjóðri fyrir neðan Erluhóla (græni hringurinn). Gula línan sýnir göngustíg.