Barry Bogin, bandarískur prófessor við Loughborough háskólann í Bretlandi, varar við því í tímaritinu American Journal of Human Biology að COVID-19 faraldurinn gæti valdið minni fæðingarþyngd hjá þeim börnum sem mæður ganga nú með. Ekki þá vegna veirunnar sjálfrar heldur streitueinkenna sem hafi þau áhrif að fóstrin nærast verr.

Hann rannsakaði þetta í kringum bankahrunið 2008 í samstarfi við spænskan vísindamann, þar sem notuð voru gögn frá Íslandi, Portúgal, Grikklandi og Japan. „Ríkisstjórnir og heilbrigðisstarfsfólk verður að tryggja að félagslegur, fjárhagslegur og tilfinningalegur stuðningur verði til staðar, fyrir alla,“ segir í greininni. Einnig að það gæti tekið allt að tvær kynslóðir að meta líffræðilegar afleiðingar faraldursins á mannkynið.

Hér á landi var gerð ítarleg rannsókn á fæðingarþyngd eftir bankahrunið. Kom þá í ljós að aukning varð í léttburafæðingum hjá þeim konum sem eignuðust börn frá apríl til júní árið 2009. Hjá konum sem voru á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar þegar hrunið skall á.

Rannsóknir eftir árásirnar á Tvíburaturnana 11. september 2001 og ýmsar náttúruhamfarir sem orðið hafa, sýna svipaðar niðurstöður. Meðgöngutíminn er ekki styttri en fóstrin vaxa hægar og eru léttari.

Védís Helga Eiríksdóttir, verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis, sem kom að íslensku rannsókninni á sínum tíma, segir ekki öruggt að það sama gerist nú, en engar upplýsingar liggi fyrir á þessari stundu. „Við getum ekki sagt til um hvað gerist nú. Þetta er öðruvísi streituvaldur,“ segir hún, en einnig er sá munur á COVID-19 og hruninu að hið síðarnefnda skall á með mun styttri fyrirvara.