„Ég fann alveg öðruvísi andrúmsloft. Ég skutlaði dóttur minni í leikskólann og það var léttara yfir öllum,“ segir Hólmfríður Björnsdóttir lögfræðingur sem búsett er í Manchester. Bretar tóku fyrsta skrefið í að aflétta ströngum sóttvarnareglum í gær við mikinn fögnuð landsmanna enda höfðu þær varað í rúma þrjá mánuði. Allt annað en fyrirtæki sem seldu nauðsynjavörur hefur verið lokað þar til í gær.

Bryndís Silja Pálmadóttir, sem er búsett í London, hefur sömu sögu að segja. „Það voru auðvitað allir spenntir fyrir því að pöbbar og veitingastaðir yrðu opnaðir aftur. Allt er að verða eðlilegra hérna með hverjum deginum. Ég er ekki búin að fara niður í bæ en hef séð myndir af löngum röðum á Oxfordstræti og þessum stóru götum þar sem fólk er að bíða eftir að komast í búðirnar, sem eru búnar að vera lokaðar síðan rétt fyrir jól. Svo eru held ég margir glaðir að komast í klippingu og ræktina,“ segir hún.

Fréttamiðlar ytra sögðu frá þessum röðum í verslanir og að sumir hefðu jafnvel mætt á barinn þegar hann var opnaður eina mínútu yfir miðnætti enda Guinness af dælu töluvert betri en úr dósinni. Boris Johnson forsætisráðherra bað fólk að haga sér skynsamlega.

Louise Boothby og Chloe Travis njóta þess að fara í klippingu á Terence Paul stofunni í Knutsford.
Getty

„Það er alveg klárlega hægt að finna að Lundúnabúar eru spenntir fyrir opnununum og þessum breytingum. Það sést bara á því að það er nánast ómögulegt að fá borð á pöbbum og veitingastöðum næstu vikurnar. Tveir af uppáhalds stöðunum okkar í London eru uppbókaðir á kvöldin margar vikur fram í tímann, en ætli við reynum ekki að mæta og vona það besta bara,“ segir Bryndís.

Þegar hún gekk í skólann í gærmorgun virtist allt frekar venjulegt, nema auðvitað að búðir voru nú opnar og virtist nóg að gera á þeim pöbbum sem hún gekk fram hjá.

„Reglurnar fram í maí eru þannig að veitingastaðir og barir geta bara boðið fólki upp á mat úti, þannig að það er auðvitað bitist mest um staði sem eru með góð útisvæði. Mér skilst líka að borgin sé að gera meira í því að aðstoða veitingastaði og bari við að koma upp útisvæðum. Á meðan veðrið er gott er þetta alls ekki vitlaus hugmynd og margir staðir eru komnir með hitara og yfirbyggð svæði ef það skyldi rigna,“ segir Bryndís.

Hólmfríður og unnusti hennar, knattspyrnukappinn Jóhann Berg Guðmundsson, eignuðust barn í lok janúar svo hún var meira og minna inni hvort sem er. Ástandið hefur því ekki leikið hana mjög grátt. „Auðvitað var svolítið leiðinlegt að geta ekki farið aðeins út en að öðru leyti var þetta allt í lagi. Það verður alveg gaman að geta hreyft sig aðeins meir.“

Hún segir að breytingin sem hún hafi fundið hafi verið sú að það var meiri umferð og raðir fyrir framan allar búðir. „Ég er ekki frá því að það sé mikill léttir í lofti og fólk almennt glatt og ánægt með að það sé búið að opna.“