Skattlagning verður um 34 milljörðum krónum lægri en ef ekki hefði komið til skattalækkana ríkisstjórnarinnar. Þá lækka tekjur ríkissjóðs um rúmlega 17 milljarða og verða því skattar á næsta ári tæplega 52 milljörðum króna lægri en þeir hefðu orðið án breytinga frá árinu 2017.

„Það væri óábyrgt að skilja ríkissjóð eftir í lok þessa áætlanatímabils áfram með 200 milljarða halla,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið fyrir 2021 ásamt fjármálaáætlun fyrir 2021 til 2025 í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í dag.

Markmið breytinganna er að létta verulega skattbyrði heimila og fyrirtækja án þess að ganga nærri tekjugrundvelli ríkissjóðs. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að draga úr opinberum álögum og auka ráðstöfunartekjur heimila.

Tekjuskattur og tryggingargjald

Umfangsmestu breytingarnar eru á tekjuskatti einstaklinga þar sem tekið var upp þriggja þrepa skattkerfi með mun lægri grunnprósentu en áður og með því lækkar skattbyrði lægst launuðu hópa í samfélaginu verulega.

Ráðstöfunartekjur láglaunafólks hækka því um rúmlega 120 þúsund krónur á ári. Þ´+a er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 23 milljarða króna.

Tryggingargjald hefur lækkað töluvert og verður skattbyrði fyrirtækja um átta milljörðum króna lægri á næsta ári og var upphæð endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja tvöfölduð.

89 milljarða króna samdráttur skatttekna

Afkoma ríkissjóðs versnar um 192 milljarða króna árið 2021 en þar vegur þyngst samdráttur skatttekna vegna minni umsvifa í samfélaginu, eða um 89 milljarðar.

Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð um 35 ma.kr. en þar má nefna fjárfestingar- og uppbyggingarátak, eflingu háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar.

Breytingar á tekjuhlið

Vegna efnahagsáhrifa kórónaveirufaraldursins hefur verið ráðið í umfangsmiklar breytingar á tekjuhlið.

Má þar nefna heimild lögaðila til afturfæranlegs taps ásamt frestun skattgreiðslna, aukin endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði, og niðurfelling gistinátta- og tollafgreiðslugjalds.

Umhverfismál

Þá hefur áhersla ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum endurspeglast í endurskoðun einstakra skatta.

Kolefnisgjald hefur hækkað og lagður hefur verið skattur á losun flúoraða gróðurhúsalofttegunda. Á móti er gefinn eftir virðisaukaskattur af kaupum á vistvænum farartækjum.

Samtals eru tekjuáhrifin jákvæð um einn milljarð króna.

Draga úr skattbyrði fjármálastofnana

Þá var lækkun bankaskatts flýtt sem mun draga úr skattbyrði fjármálastofnana um 6,6 milljarða króna á næsta ári. Gert er ráð fyrir að frítekjumark erfðafjárskatts verði hækkað og er áætlað að það muni minnka álögur um 500 milljónir árið 2021.

Verið er að leggja lokahönd á endurskoðun stofns fjármagnstekjuskatts og er gert ráð fyrir að umfangið geti numið allt að tveimur milljörðum króna til lækkunar.

Að lokum er gert ráð fyrir 2,1 milljarða króna tekjutapi vegna nýrra eða aukinna skattastyrkja til að styðja við félög sem starfa í þágu almannaheila.

Hægt er að sjá frumvarpið í heild sinni hér.