Málverkið „Sjálfsmynd með bláan hatt“ eftir Louisu Matthíasdóttur var í miðju dómsmáls sem Héraðsdómur Reykjaness felldi dóm á í gær. Uppboðshúsi er gert að greiða eiganda verksins 300 þúsund krónur.

Maðurinn sem höfðaði málið keypti verkið á málverkasýningu á Kjarvalsstöðum árið 1974. Þremur árum síðar fór hann vini sínum að varðveita málverkið á meðan hann fór erlendis í framhaldsnám, en sú för ílengdist til ársins 1995. 

Málverkið var þó enn í vörslum vinarins árið 2016 þegar það var selt á uppboði. Verkið var slegið á 1.8 milljónir króna og var skilaverðið rúm ein og hálf milljón, sem vinurinn millifærði á manninn skömmu eftir að hann tók við söluandvirðinu.

Áttaði sig á sölunni tveimur árum síðar

Maðurinn vildi meina að árið 2018 hefði hann fyrst orðið þess var að millifærslan væri vegna sölu á málverkinu, en svo virðist sem að hann væri ósáttur með að það hefði verið selt.

Í kjölfarið óskaði hann eftir upplýsingum um kaupanda verksins og fékk þær ekki hjá uppboðshúsinu, en komst að því að vinurinn hefði verið skráður eigandi verksins þegar uppboðið fór fram.

Vinurinn útskýrði síðan að hann hefði selt verkið til að bæta lausafjárstöðu mannsins. Á meðal gagna málsins voru tölvupóstar þar sem vinurinn spurði manninn hvort hann mætti ekki selja verkið. Hann virtist ekki hafa fengið nein svör, en taldi að þau hefðu verið lesin.

Keypti verkið aftur á fimm milljónir

Árið 2020 upplýsti uppboðshúsið hver kaupandi verksins hefði verið, en það var gert fyrir dómi. Maðurinn setti sig þá í samband við kaupandann og keypti verkið aftur á fimm milljónir króna.

Eftir það gerði hann kröfu á hendur vininum og uppboðshúsinu. Sættir náðust við vininn sem greiddi tvær og hálfa milljón í bætur. Hins vegar neitaði uppboðshúsið bótaskyldu.

Því höfðaði maðurinn mál, en dómur í því var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Hann krafðist þess að uppboðshúsið myndi greiða rúmar tvær milljónir. Á móti krafðist uppboðshúsið að málinu yrði vísað frá dómi, og til vara sýknu.

Uppboðshúsið var sýknað af kröfum um bætur vegna ætlaðrar ólögmætrar háttsemi við sölu verksins. Á hinn bóginn var fallist á að uppboðshúsið hefði átt að veita manninum upplýsingar um kaupanda verksins, en líkt og áður segir var það ekki gert fyrr en málið fór fyrir dóm tveimur árum síðar. Vegna þess varð maðurinn fyrir fjárhagslegu tjóni vegna lögmannskostnaðar, sem hefði orðið minni hefði hann fengið upplýsingarnar fyrr.

Því ákvað dómurinn að gera uppboðshúsinu að greiða manninum 300 þúsund krónur.