Tilkynnt var um umferðarslys skömmu eftir klukkan fimm í gær. Sami ökumaðurinn ók á tvo bíla á skömmum tíma. Annan í Vesturbæ Reykjavíkur en hinn í Breiðholtinu. Eftir seinni áreksturinn hljóp ökumaðurinn frá vettvangi og skildi bíl sinn eftir mjög tjónaðan. Engin slys urðu á fólki en töluvert tjón varð á bílunum. Málið er í rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Um klukkan hálf sex í gær var maður og kona handtekinn í íbúð í miðbæ Reykjavíkur. Þau eru grunuð um vörslu og sölu fíkniefna, líkamsárás og brot á lyfja- og vopnalögum. Þau voru vistuð í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.
Tilkynnt var um líkamsárás í sama hverfi um klukkan eitt í nótt. Þrír menn voru handteknir grunaðir um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Árásarþoli var fluttur til aðhlynningar á bráðadeild Landspítalans og verður síðan einnig vistaður í fangageymslu lögreglu.
Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í Vesturbænum klukkan hálf tvö í nótt. Lögregla hafði afskipti af manni sem hafði reynt að stela mat-og snyrtivörum.