Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu færði mann í fanga­klefa í gær­kvöldi eftir að hann lét ó­frið­lega á Lauga­vegi í mið­borg Reykja­víkur. Að sögn lög­reglu var maðurinn ölvaður og reyndi hann meðal annars að stofna til slags­mála.

Við nánari at­hugun reyndist maðurinn vera er­lendur ferða­maður sem var ný­kominn til landsins og átti hann að vera í sótt­kví af þeim sökum. „Maðurinn var mjög ölvaður og var með dólg við lög­reglu­menn og neitaði að gefa upp nafn og hafði engin skil­ríki,“ segir í skeyti lög­reglu.

Lög­regla hafði svo af­skipti af þremur er­lendum ferða­mönnum á veitinga­húsi í mið­borginni á tíunda tímanum í gær­kvöldi, en þeir voru einnig ný­komnir til landsins og áttu að vera í sótt­kví.

Fólkið var hand­tekið og fært á lög­reglu­stöð til skýrslu­töku en lög­regla var áður búin að hafa af­skipti af þeim þar sem til­kynnt var um brot á sótt­kví. Ferða­mennirnir munu eiga flug frá landinu á morgun.

Lög­regla hafði svo af­skipti af nokkrum öku­mönnum víðs vegar um borgina sem eru grunaðir um akstur undir á­hrifum fíkni­efna og á­fengis. Einn 17 ára öku­maður á yfir höfði sér kæru fyrir vörslu fíkni­efna en bif­reið hans var stöðvuð í Hafnar­firði á þriðja tímanum í nótt. Mikil fíkni­efna­lykt var í bif­reiðinni og fundust þar ætluð efni. For­eldrum og Barna­vernd var til­kynnt um málið.

Í sér­stöku eftir­liti lög­reglu við Vífils­staða­veg í gær­kvöldi voru 82 öku­menn stöðvaðir og kannað með á­stand þeirra og réttindi. Einn öku­maður er grunaður um akstur undir á­hrifum fíkni­efna og tveir öku­menn reyndust hafa neytt á­fengis. Báðir voru þeir þó undir refsi­mörkum en gert að hætta akstri.