Réttað er nú yfir þrí­tugum karl­manni í München í Þýska­landi en hann er sakaður um að hafa sann­fært tugi kvenna til að gefa sjálfum sér raf­lost á meðan hann horfði í gegnum fjar­skipta­for­ritið Skype. Sam­kvæmt frétt þýska frétta­miðilsins Spi­egel On­line starfar maðurinn sem tölvunar­fræðingur en hann hefur að­eins verið nefndur David G.

Talið er að hann hafi látið að minnsta kosti 79 konur gefa sjálfri sér raf­lost en hann sagðist vera vísinda­maður og bauð konunum hátt í fimm­tán hundruð evrur, eða rúm­lega tvö hundruð þúsund krónur, fyrir að taka þátt í rann­sókn á á­hrifum raf­losts. Konurnar voru flestar á milli fimm­tán ára og þrí­tugs en yngsta fórnar­lamb hans var einungis þrettán ára.

Maðurinn hvatti konurnar meðal annars til að nota heimagerð raflosts tæki svipuð þeim sem notuð eru í raflostmeðferðum.
Mynd/DPA

Vissi að 230 volt gætu drepið

Sam­kvæmt upp­lýsingum þýska miðilsins á David yfir höfði sér 88 á­kærur fyrir til­raun til mann­dráps Fram kemur að David hafi látið konurnar gefa sjálfum sér raf­lost upp að 230 voltum meðal annars með því að láta þær setja bera raf­magns­víra upp að fæti þeirra, stinga nöglum í inn­stungur og nota heimagerð raflosts tæki svipuð þeim sem notuð eru í raflostmeðferðum.

Á meðan sumar konurnar neituðu að gera það sem David bað um þá gáfu sumar sér í­trekað raf­lost og fengu meðal annars hjálp for­eldra og maka. David hafði þá sagt þeim að raf­lostið kæmi ekki til með að hafa skað­leg á­hrif en að sögn sak­sóknara í málinu vissi David að raf­lost upp á 230 volt gæti drepið ein­stak­linga.

Að sögn verjanda mannsins hefur David verið lagður inn á geð­spítala en hann er með Asper­bergers og segir verjandinn að sökum þess hafi hann ekki getað komið í veg fyrir gjörðir sínar. Réttar­höldin eru ekki opin al­menning en dómarinn í málinu segir á­stæðuna vera vegna þess sem gæti komið fram um einka­líf Davids.