Það er víðar en á Ís­landi sem sjúk­lingar þurfa að gera sér að góðu að liggja á göngum sjúkra­húsa. Frank Reit­he, 56 ára Norð­maður, á­kvað að flýja Há­skóla­sjúkra­húsið í Norður Noregi á dögunum þegar honum var komið fyrir á ganginum eftir að hafa gengist undir að­gerð vegna hand­leggs­brots.

Í sam­tali við VG segir Frank að starfs­fólk sjúkra­hússins hafi verið til fyrir­myndar og viljað allt fyrir hann gera. Aug­ljóst sé að starfs­fólki séu þröngar skorður settar og þeir geti í sjálfu sér lítið gert til að fjölga rúmum eða sjúkra­stofum.

Frank gekkst undir að­gerðina þann 24. janúar síðast­liðinn og segir hann að allt hafi gengið eins og í sögu til að byrja með. Eftir að­gerðina var honum hins vegar komið fyrir á ganginum þar sem allar sjúkra­stofur voru fullar. Átti hann að eyða nóttinni undir björtum loft­ljósum sjúkra­húss­gangsins.

Frank segir að þegar hann fór að ranka betur við sér eftir að­gerðina og á­hrif verkja­lyfja fóru þverrandi hafi hann orðið pirraður og gjarnan viljað komast í meira næði. Fyrst ekkert pláss var fyrir hann á­kvað hann að fara heim til sín í faðm eigin­konu sinnar, Mai-Lene Reit­he, en svo heppi­lega vill til að hún er hjúkrunar­fræðingur að mennt.

„Af því að hún er hjúkrunar­fræðingur þá fékk ég leyfi til að fara heim. Annars hefði ég senni­lega þurft að vera þarna á­fram,“ segir hann.

VG segir að for­svars­menn sjúkra­hússins hafi stað­fest frá­sögn Franks; hann hafi raunar bæði þurft að liggja á ganginum fyrir og eftir að­gerðina vegna pláss­leysis. Ing­vild Kjer­kol, heil­brigðis­ráð­herra Noregs, hefur látið þau orð falla að árið gæti orðið erfitt fyrir norskar heil­brigðis­stofnanir.

Í um­fjöllun VG kemur fram að Frank hafi skrifað færslu um reynslu sína á Face­book sem vakti mikla at­hygli. Kvaðst hann hafa stungið niður penna þar sem hann vor­kenndi norsku heil­brigðis­starfs­fólki, það væri sett í þá erfiðu stöðu að hugsa um fleiri sjúk­linga en það ræður við.