Það er víðar en á Íslandi sem sjúklingar þurfa að gera sér að góðu að liggja á göngum sjúkrahúsa. Frank Reithe, 56 ára Norðmaður, ákvað að flýja Háskólasjúkrahúsið í Norður Noregi á dögunum þegar honum var komið fyrir á ganginum eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna handleggsbrots.
Í samtali við VG segir Frank að starfsfólk sjúkrahússins hafi verið til fyrirmyndar og viljað allt fyrir hann gera. Augljóst sé að starfsfólki séu þröngar skorður settar og þeir geti í sjálfu sér lítið gert til að fjölga rúmum eða sjúkrastofum.
Frank gekkst undir aðgerðina þann 24. janúar síðastliðinn og segir hann að allt hafi gengið eins og í sögu til að byrja með. Eftir aðgerðina var honum hins vegar komið fyrir á ganginum þar sem allar sjúkrastofur voru fullar. Átti hann að eyða nóttinni undir björtum loftljósum sjúkrahússgangsins.
Frank segir að þegar hann fór að ranka betur við sér eftir aðgerðina og áhrif verkjalyfja fóru þverrandi hafi hann orðið pirraður og gjarnan viljað komast í meira næði. Fyrst ekkert pláss var fyrir hann ákvað hann að fara heim til sín í faðm eiginkonu sinnar, Mai-Lene Reithe, en svo heppilega vill til að hún er hjúkrunarfræðingur að mennt.
„Af því að hún er hjúkrunarfræðingur þá fékk ég leyfi til að fara heim. Annars hefði ég sennilega þurft að vera þarna áfram,“ segir hann.
VG segir að forsvarsmenn sjúkrahússins hafi staðfest frásögn Franks; hann hafi raunar bæði þurft að liggja á ganginum fyrir og eftir aðgerðina vegna plássleysis. Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra Noregs, hefur látið þau orð falla að árið gæti orðið erfitt fyrir norskar heilbrigðisstofnanir.
Í umfjöllun VG kemur fram að Frank hafi skrifað færslu um reynslu sína á Facebook sem vakti mikla athygli. Kvaðst hann hafa stungið niður penna þar sem hann vorkenndi norsku heilbrigðisstarfsfólki, það væri sett í þá erfiðu stöðu að hugsa um fleiri sjúklinga en það ræður við.