Landsþing Miðflokksins fer nú fram á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut og flutti formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ræðu fyrr í dag þar sem hann fór um víðan völl.
Sigmundur sagði að þegar flokksmenn hafa lagt línurnar á yfirstandandi landsþingi verði annar viðbruður að viku liðinni. Kvaðst Sigmundur ætla að fylgja honum eftir með sérstökum kynningarfundi.
„Þar fer ég yfir hvernig hægt er að ná stórum og mikilvægum markmiðum með algjörlega nýrri nálgun í íslenskum stjórnmálum. Þetta verða útfærslur sem virka og eru til þess fallnar að ryðjast í gegnum allar hindranir sem góðar hugmyndir og framfaraskref mæta yfirleitt,“ sagði Sigmundur sem bætti við að allt yrði þetta byggt á þeirri stefnu og þeim markmiðum sem Miðflokkurinn leggur upp með á landsþingi sínu.
„Ég er svo sannfærður um að lausnir okkar muni virka að þegar ég lagði af stað í ferðalag um landið fyrir tæpum tveimur vikum lét ég konuna mína hafa drögin þannig að ef ég lenti í óhappi á leiðinni gæti hún komið þeim á framfæri og flokkurinn nýtt hugmyndirnar til hagsbóta fyrir landið,“ sagði hann.
Sigmundur kom meðal annars inn á umhverfismál í ræðu sinni og sagði að þar væru tækifæri fyrir Íslendinga. Gagnrýnir Sigmundur Davíð stjórnvöld og sagði stefnu Íslands í loftslags- og umhverfismálum skaðlega. Stefnan myndi skerða lífskjör almennings og leiða til misskiptingar.
Hann ræddi einnig að nauðsynlegt væri að fara betur með peninga skattgreiðenda.
„Samhliða auknu kerfisræði stækkar báknið. Það hefur aldrei verið stærra,“ sagði hann og bætti við að sú þróun myndi bara halda áfram nema mörkuð verði stefna um hvernig henni verði snúið við.
„Á fjórum árum væri hægt að minnka umsvif hins opinbera miðað við landsframleiðslu um 10% með því að stöðva útþensluna, ráða ekki í meira en helming þeirra starfa sem losna, einfalda stofnanakerfið og auðvitað með aukinni landsframleiðslu.“
Sagði Sigmundur að þessi sparnaður yrði til þess að lækka mætti álögur á almenning um 125 milljarða króna.