Maðurinn, sem lést í sundlauginni á Selfossi í gær, var búinn að vera á botni sundlaugarinnar í sjö mínútur þegar tíu ára gamlir sundlaugargestir fundu hann. Þetta kemur fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Sundlaugargestum, þá sérstaklega börnunum sem fundu manninn, var í kjölfarið boðin áfallahjálp hjá Rauða krossinum.

Slysið gerðist á vaktaskiptatíma sundlaugarvarða samkvæmt Braga Bjarnasyni, deildarstjóra frístunda- og menningardeildar Árborgar.

Fimm sundlaugarverðir eru starfandi í húsinu og skipta þeir á hálftíma fresti. Verið er að skoða málið með heilbrigðiseftirlitinu og lögreglunni á Selfossi.

Bragi segist harma atvikið og sé nauðsynlegt að athuga hvað þurfi að bæta varðandi öryggi í sundlauginni.

„Við viljum aldrei lenda í þessu aftur þannig við ætlum að gera allt sem við getum til að laga, ef það er eitthvað sem við getum lagað. Þannig að sundlaugin sé örugg. Við viljum hafa sundlaugina örugga þannig að fólki líði vel hjá okkur,“ sagði Bragi í samtali við Stöð 2.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.