Kona lést í kjölfar sprengingar í kynjapartý [e. gender reveal party] í Iowa í Bandaríkjunum síðasta laugardag. Samkvæmt tilkynningu frá lögregluyfirvöldum í Marion-sýslu lést konan eftir að brot flaug úr sprengjunni sem afhjúpa átti kyn ófædds barnsins í veislunni.
Atvikið átti sér stað í Knoxvville í Iowa og var konan úrskurðuð látin á vettvangi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.
Svokölluð kynjapartý verða algengari með hverju árinu sem líður en þar afhjúpar par sem von á barni kyn þess með því að sprengja blöðru, konfetti eða er með köku sem er annað hvort blá eða bleik innan í. Yfirleitt býður parið sínum nánustu í slíka veislu þegar þau hafa fengið staðfest kynið hjá lækni. Á Íslandi stendur pörum það til boða þegar meðganga er um það bil hálfnuð, eða í 20 vikna skoðun fóstursins.
Þó svo alvarleg óhöpp séu ekki tíð í slíkum veislum þá hefur áður verið greint frá óhöppum. Sem dæmi kviknaði árið 2017 villieldur í Arizona í Bandaríkjunum í slíkri veislu, og í Ástralíu sprakk skyndilega bíll sem nota átti til að afhjúpa kynið með bláum reykjarmekki.