Ein kona lést þegar eldur kom upp í íbúðarhúsi í uppsveitum Borgarfjarðar í gær en lögreglan á Vesturlandi fékk tilkynningu um málið um klukkan 17:30. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Facebook.

Konan var inni í húsinu þegar eldurinn kom up en ekki er vitað um eldsupptök og er rannsókn á frumstigi. Lögreglan á Vesturlandi og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsaka nú eldsupptök.

Að því er kemur fram í tilkynningunni var íbúðarhúsið alelda þegar slökkvilið og lögregla kom á vettvang og voru aðstæður til slökkvistarfs erfiðar. Um þremur klukkutímum síðar náði slökkvilið tökum á eldinum en húsið er nú gjörónytt.

Slökkvistarfi lauk um klukkan 23 í gær og komu slökkvilið frá öllum starfsstöðvum slökkviliðs Borgarfjarðar að því auk þess sem slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar aðstoðaði við málið.

Lögregla veitir ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.