Tveir ungir menn voru rændir af þremur ungmennum í Gautaborg í nótt. Var annar mannanna stunginn með hnífi og lést hann stuttu seinna af áverkunum.

Thomas Fuxborg hjá lögreglunni í Gautaborg segir í frétt Aftonbladet um morðið að mennirnir ungu hafi verið á gangi þegar veist hafi verið að þeim, þeir rændir og annar þeirra stunginn með hnífi.

Var hann fluttur á sjúkrahús en lést af sárum sínum stuttu síðar. Hann var 18 ára. Félagi hans slapp við alvarlega áverka og var vitnisburður hans lögreglunni mikilvægur við að handsama árásaraðila.

Þau grunuðu eru tveir menn um tvítugt og 18 ára kona. Tösku, símum og keðju var rænt af fórnarlömbunum og fann lögregla þessa hluti í fórum hinna grunuðu. Hnífur sem talinn vera morðvopnið fannst fljótlega í nærliggjandi ruslatunnu. Ungmennin þrjú eru öll grunuð um morðið. Ekki er tilefni til þess að halda að fórnarlömdin tengist þeim á neinn hátt að svo stöddu.