Svartur maður lést í Minneapolis í Bandaríkjunum á mánudag eftir að lögregluþjónn kraup á hálsi hans og þrengdi að öndunarveginum.

Atvikið sem náðist á myndband hefur vakið mikla reiði vestanhafs og er nú til rannsóknar hjá lögregluembættinu og bandarísku alríkislögreglunni.

Samkvæmt lögreglu er aðdragandinn sá að henni barst tilkynning um meint skjalafals í verslun á mánudag.

Maðurinn sem talinn er vera á fimmtugsaldri var grunaður um verknaðinn og streittist á móti við handtökuna að sögn lögreglu en tókst svo að færa hann í handjárn.

„Ég get ekki andað“

Á myndskeiðinu sem hefur náð mikilli útbreiðslu á samfélagsmiðlum sést lögreglumaður síðan þrýsta hnénu á hálsinn á honum á sama tíma og hann segist endurtekið ekki ná andanum.

Eftir nokkrar mínútur sést maðurinn þagna og liggja hreyfingalaus með andlitið í götunni. Þá heldur lögregluþjónninn áfram að þrengja að öndunarvegi mannsins við hróp og köll sjónvarvotta sem báðu hann um að hætta.

Að lokum kom sjúkraflutningamaður á vettvang sem teygir sig undir hné lögregluþjónsins til að mæla púls mannsins sem var síðan fluttur burt með sjúkrabíl.

Atvikið er að sumum talið minna á mál Eric Garner sem lést í höndum lögreglu árið 2014. Var það líkt og nú kveikja að umræðu um kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum og störf lögreglunnar.

Sjá má brot úr umræddu myndbandi hér fyrir neðan en vara ber viðkvæma við því að það geti valdið óhug lesenda.