Þrítugur maður sem hlaupið hafði hálfmaraþon í New York í Bandaríkjunum hneig niður og lést stuttu eftir að hann hafði komist yfir marklínuna. AP News greina frá þessu.
Hlauparinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var síðar úrskurðaður látinn.
Það er óljóst hvað olli því að hlauparinn hneig niður en í yfirlýsingu frá félagasamtökunum New York Runners segir að það hafi gerst eftir að hann kláraði hálfmaraþon, sem er 21,1 kílómetri að lengd.
„Hugsanir okkar og samúð er hjá fjölskyldu hlauparans og þeim sem voru nákomnir honum,“ sagði talsmaður félagasamtakanna.
Talsmaðurinn sagði heilbrigðisfólk hafa verið staðsett á reglulegu millibili frá ráskafla til endamarks og að þau hafi fylgst vel með framvindu maraþonsins.
Hópurinn fylgdist einnig vel með veðurskilyrðum á meðan hlaupinu stóð. Hitaviðvörun hafði verið gefin út um morguninn, en mikill hiti og raki var í borginni.
Sex aðrir hlauparar voru fluttir á sjúkrahús eftir maraþonið, þrír voru alvarlega slasaðir, þó ekki lífshættulega, en hinir þrír voru með minniháttar áverka. 22 þúsund hlauparar tóku þátt í maraþoninu.