Þrí­tugur maður sem hlaupið hafði hálf­mara­þon í New York í Banda­ríkjunum hneig niður og lést stuttu eftir að hann hafði komist yfir mark­línuna. AP News greina frá þessu.

Hlauparinn var fluttur á sjúkra­hús þar sem hann var síðar úr­skurðaður látinn.

Það er ó­ljóst hvað olli því að hlauparinn hneig niður en í yfir­lýsingu frá fé­laga­sam­tökunum New York Runn­ers segir að það hafi gerst eftir að hann kláraði hálf­mara­þon, sem er 21,1 kíló­metri að lengd.

„Hugsanir okkar og sam­úð er hjá fjöl­skyldu hlauparans og þeim sem voru ná­komnir honum,“ sagði tals­maður fé­laga­sam­takanna.

Tals­maðurinn sagði heil­brigðis­fólk hafa verið stað­sett á reglu­legu milli­bili frá rá­skafla til enda­marks og að þau hafi fylgst vel með fram­vindu mara­þonsins.

Hópurinn fylgdist einnig vel með veður­skil­yrðum á meðan hlaupinu stóð. Hita­við­vörun hafði verið gefin út um morguninn, en mikill hiti og raki var í borginni.

Sex aðrir hlauparar voru fluttir á sjúkra­hús eftir mara­þonið, þrír voru al­var­lega slasaðir, þó ekki lífs­hættu­lega, en hinir þrír voru með minni­háttar á­verka. 22 þúsund hlauparar tóku þátt í mara­þoninu.