Ást iðnaðar­manns í Massachusetts á svörtum lakkrís kostaði hann lífið að sögn banda­rískra lækna. Maðurinn var 54 ára að aldri og hafði borðað einn og hálfan poka af lakkrís í nokkrar vikur áður en hann lést. Lakkrísinn olli ó­jafn­vægi á maga­kerfi mannsins og varð til þess að hann fékk hjarta­á­fall.

„Jafn­vel lítið magn af lakkrís getur hækkað blóð­þrýsting fólks að ein­hverju magni,“ sagði Neel Butala, hjarta­sér­fræðingur á sjúkra­húsinu í Massachusetts þegar fjallað var um málið hjá New Eng­land Journal of Medicine.

Lítið magn einnig skað­legt

Vanda­málið er falið í gly­cyrr­hizic sýru sem er að finna í svörtum lakkrís og fjölda annarra mat­væla og fæðu­bótar­efnum sem inni­halda lakkrísrót. Efnið getur valdið al­var­legri lækkun á kalíumi og ó­jafn­vægi á öðrum stein­efnum, aðal­lega raf­lausnum.

Tæp­lega 30 grömm af svörtum lakkrís á dag í tvær vikur geta valdið hjart­sláttar­truflunum. Sér í lagi meðal fólk sem er eldra en fer­tugt.

Ekki er að­eins um að ræða lakkrís­rör heldur einnig sæl­gæti með lakkrís­bragði, lakkríste og jafn­vel bjór eða tóbak að sögn Robert Eckel, hjarta­sér­fræðingi í há­skólanum í Col­or­ado.