Lesblindi ,,rithöfhundurinn" Oreo er aðalpersóna bókarinnar Oreo fer í skólann sem Sylvía Erla Melsted gaf út á dögunum. Sylvía ræddi hvernig er að vera lesblindur rithöfundur í Fréttavaktinni.

Söngkonan og rithöfundurinn Sylvía Erla Melsted mætti í viðtal til Margrétar Erlu Maack í Fréttavakt Hringbrautar og Fréttablaðsins í gærkvöldi þar sem hún ræddi nýútgefna bók sína Oreo fer í skólann.

Bókin er ætluð börnum og fjallar um hundinn Oreo, sem ber sama nafn og hundur Sylvíu, sem er lesblindur. Honum er strítt í skóla og verður leiður en eigandi hans veit sem betur fer að það eru fjölmargar leiðir til að takast á við þetta nýja verkefni. Verkið er byggt á reynslu Sylvíar, en í grunnskóla fékk hún lesblindugreiningu.

„Ég fékk mína lesblindugreiningu fremur seint eða í enda níunda bekkjar, ég var svona meðalnemandi svo það var enginn að pæla í „hún er með of lélegar einkunnir,“ segir Sylvía.

Í vetur gaf hún út myndina Lesblinda og Sylvía hefur haldið fjölda fyrirlestra fyrir börn um lesblindu.

Sylvía viðurkennir að lesblindur rithöfundur gæti komið spánskt fyrir sjónir en hún fékk mikla aðstoð við stafsetningu.

„Ég fékk mikla hjálp og það þurfti alveg 10 manns að fara yfir þetta“ segir Sylvía létt í bragði.

Hún stefnir á að fylgja bókinni eftir með fleiri verkefnum og mögulegum framhaldstitlum.

„Það kemur alveg fullt meira með þetta og við erum að fara gefa út lag og Oreodansinn fyrir krakka,“ segir Sylvía.

Horfið á viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.

Fréttavaktin er sýnd á Hringbraut og Fréttablaðið.is alla virka daga klukkan 18:30.