Gagnasöfnun í einni stærstu vatnarannsókn heims er nú að ljúka hér á Íslandi. Tekin hafa verið sýni úr 52 stöðuvötnum sem verða greind til að finna erfðaefni dýra og plantna allt að 14 þúsund ár aftur í tímann.

„Setlög úr stöðuvötnum geta sagt okkur hvernig lífríkið og loftslagið var í fortíðinni,“ segir hinn bandaríski Wesley Farnsworth, nýdoktor við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, sem leiðir rannsóknina. Hún er unnin á vegum Rannsóknarseturs Margrétar II Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag, ROCS, og er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla en auk þess koma að henni fjölmargar stofnanir á Íslandi og í Danmörku.

Wesley Farnsworth nýdoktor
Mynd/Aðsend

Setlögunum er safnað í stór rör, frá 2 til 10 metra löngum. Wesley segir aðferðina hafa verið notaða í um 100 ár. Hún hefur þó verið þróuð mikið á undanförnum árum og notaðir eru stimplar til að framkalla sog inni í rörinu.

Fyrst eru vötnin dýptarmæld og svo er sýnunum safnað á bestu stöðunum. Flest íslensku sýnin voru tekin í vetur og ísbor notaður til að komast að. Vötnin eru ekki endilega þau stærstu á landinu, heldur flest í smærra lagi. Er þá horft til þess að vatnasviðið sé ekki of stórt til að hægt sé að hafa betri yfirsýn. Wesley segir að hugsanlega verði tveimur vötnum bætt í hópinn áður en sýnin verða send til Danmerkur á rannsóknarstofu.

Samkvæmt Wesley eru tveir fókuspunktar á rannsókninni. Annars vegar rannsókn á síðustu 2 þúsund árum og hins vegar síðustu 14 þúsund. „Við viljum sjá hvernig hin ósnortna náttúra Íslands breyttist í kjölfar landnáms,“ segir hann. Það er að sjá hvernig náttúran var fyrir níundu öld þegar land var numið og eftir hana.

Hinn punkturinn lýtur að því skeiði þegar gervallt Ísland var að koma undan 2 kílómetra þykkum ís sem náði allt að 100 kílómetra út fyrir landsteinana. Hann gaf sig fyrir rúmlega 14 þúsund árum og strandlengjan kom í ljós.

Wesley segir að áður fyrr hafi vísindamenn þurft að eyða gríðarlega miklum tíma í að skima efni í smásjám til að finna frjókorn eða steingervinga af laufblöðum eða greinum. Í dag er notað svokallað umhverfiserfðaefni, eDNA, þar sem hægt er að draga fram erfðaefni eða búta úr því með hátæknilegum aðferðum til að greina tegundirnar. Hvort sem það eru skeljar, bein, plöntuleifar eða annað.

„Tilvist fólks, ákveðinna dýrategunda og plantna, gefur okkur vísbendingar um hvernig loftslagið var,“ segir Wesley. „Til dæmis getur fjöldi tiltekinna blóma sagt okkur mikið um hversu hátt hitastigið var á sumrin.“

Brátt hefst starf við að vinna úr gögnunum og Wesley segir að það muni taka nokkurn tíma. Niðurstöðurnar verða sennilega ekki birtar allar í einu en þær munu liggja fyrir á næstu árum.