Lenya Rún Taha Karim er nýr þingmaður Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður og sömuleiðis yngsti þingmaðurinn sem kjörinn er á Alþingi.

„Ég skelf en ég held að ég sé ekki búin að meðtaka neitt,“ segir Lenya í samtali við Fréttablaðið.

Hún er rétt tæplega 22 ára gömul og er á síðasta ári í lagadeild HÍ. Vert er að nefna að Karl Liljendal Hólmgeirsson varð yngsti þingmaðurinn á Íslandi þegar hann tók sæti á Alþingi fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson árið 2018 en ólíkt Lenya var hann ekki kjörinn á þing heldur tók sæti sem varaþingmaður.

Fréttablaðið náði tali af Lenyu í morgun en þar sagðist hún þurfa að setjast niður og meðtaka upplýsingarnar. Hún hefur þó ekki tíma til að kúpla sig út þar sem hún er með fulla dagskrá af viðtölum og fundum.

Lenya á auglýsingaskilti Pírata.
Fréttablaðið/Ernir

Aðspurð segir hún sitt fyrsta verkefni á Alþingi vera afglæpavæðing neysluskammta.

„Ástæðan fyrir því að ég vil klára það strax er að það eru til tvö fullbúin frumvörp. Af hverju getum við ekki byrjað á þessu strax og komið málinu áfram?“ segir hún.

Segir hún niðurstöður kosninga ekki vera drauma aðstæður, hún hafi viljað fá átta þingmenn jafnvel þó hún hefði ekki komist inn sjálf. Hún er þó bjartsýn fyrir framtíðinni.

„Við erum öflugt teymi í Pírötum og það eru spennandi tímar framundan.“ Nýr þingflokkur Pírata mun funda í dag.