Gestum á Titanic-safninu í Tennes­see-ríki Banda­ríkjanna var heldur betur brugðið þegar „ís­veggur“ sem átti að tákna ís­jakann sem sökkti Titanic féll niður á þá í vikunni. Rúm öld er síðan Titanic sökk í Norður-At­lants­hafi eftir að það lenti á ís­jaka og því heldur kald­hæðnis­legt slys.

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið særðust þrír gestir þegar veggurinn, sem var 4,6 sinnum 8,5 metrar að stærð og gerður úr klaka, féll á þá en ekki liggur fyrir hversu al­var­lega þeir særðust.

Lög­reglan í Pi­geon For­ge, þar sem safnið er stað­sett, greindi frá því í yfir­lýsingu að svo virtist sem að um hafi verið að ræða slys en safnið mun einnig standa fyrir rann­sókn á því hvað átti sér stað.

Í færslu safnsins á sam­fé­lags­miðlum segir að veggurinn sé ekki lengur til og hefur svæðið í kringum slysið verið lokað af en safnið sjálft opnaði aftur degi síðar. Að sögn eig­enda safnsins er talið að það muni taka að minnsta kosti fjórar vikur að byggja nýjan vegg.