Innlent

Lentu í snjóflóði og grófu sig í fönn

Rúmenar lentu í snjóflóði við Grímsfjall í gær og fundust heilir á húfi í nótt. Þeir gerðu allt rétt; höfðu skráð ferðir sínar og höfðu með sér neyðarsendi.

Björgunarsveitum leist um stund ekki á blikuna. Björgunarfélag Hornafjarðar

Mennirnir tveir sem leitað var á Vatnajökli seint í gærkvöldi og nótt fundust um klukkan fjögur. Þeir höfðu þá lent í snjóflóði við Grímsfjall og grafið sig í fönn. Friðrik Jónas Friðriksson, sem stýrði leitaraðgerðum, segir í samtali við Fréttablaðið að leitarmönnum hafi ekki litist á blikuna þegar þeir fundu búnað frá mönnunum, án þess að verða varir við mennina sjálfa.

„Við fundum um þrjúleytið svolítið af búnaði frá þeim og þá fengu menn hland fyrir hjartað. En þeir fundust svona klukkutíma síðar,“ segir Friðrik. Hann segir að þeir hafi þá verið í svona 500 til 600 metra fjarlægð frá þeim stað þar sem búnaðurinn fannst.

Mennina hafði að hans sögn borið svolítið af leið, miðað við ferðaáætlun. Þeir hafi lent í skítaveðri og því hrakist aðeins fram með fjallinu sem þeir ætluðu að fara upp. „Og þeir lenda í snjóflóði þar. Það var þá sem þeir sáu ekki annað fært en að kveikja á neyðarsendunum.“

Friðrik Jónas segir að mennirnir hafi verið vel búnir og vel upplýstir. Fréttablaðið/Aðsend

Friðrik Jónas segir að mennirnir hafi skráð ferðatilhögun sína hjá Safe Travel og þar fengið neyðarsendi. Fyrir vikið hafi þeir fundist jafn hratt og vel og raunin varð. „Þeir voru mjög vel upplýstir þegar þeir komu til landsins. Neyðarsendirinn sem þeir fengu gerir það að verkum að við vissum hverjir þetta voru, hvar þeir voru og hvert ferðinni var heitið – í raun allt um þá.“ Hann telur að þeir hefðu spjarað sig vel ef ekki hefði verið fyrir snjóflóðið. Þeir hafi í raun gert allt rétt.

Mennirnir, sem eru frá Rúmeníu, voru kaldir og blautir þegar að var komið, en annars „sprækir miðað við aðstæður,“ segir Friðrik.

Tólf manns frá Björgunarfélagi Hornafjarðar fóru á jökulinn en líka sex menn að austanverðu og sjö að vestan. Samtals hafi þetta verið um ríflega 20 manns. Alls voru um 150 björgunarmenn kallaðir út til leitar í gærkvöldi en mennirnir fundust áður en sá fjöldi var kominn að jöklinum. Hann segir að enginn leiðangursmanna sé kominn niður af jöklinum, enda sé þetta langt ferðalag. Veður sé nú mjög gott á svæðinu. „Það er blíða núna næstu tólf til fjórtán tímana.“

Hér að neðan eru myndir frá björgunaraðgerðum næturinnar.

Frá vettvangi í gær. Björgunarfélag Hornafjarðar
Öðrum manninum hjálpað upp úr holunni. Björgunarfélag Hornafjarðar
Grímsfjall. Björgunarfélag Hornafjarðar
Annar maðurinn var orðinn mjög kaldur. Björgunarfélag Hornafjarðar
Björgunarfélag Hornafjarðar Grísvötn Skáli
Þreyttir menn hvíla lúin bein í skála. Björgunarfélag Hornafjarðar

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Skuldagrunnur á teikniborði eftirlitsins

Innlent

Meirihluti Íslendinga óttast afleiðingar loftslagsbreytinga

Innlent

Kostar 1,3 milljarða að lagfæra fyrir nýja ferju

Auglýsing

Nýjast

Segir fyrirferð RÚV líklega ástæðu úttektar

Handtóku tvo katalónska bæjarstjóra

Dómur í Bitcoin-málinu kveðinn upp í dag

500 milljóna endurbætur vegna húsnæðis mathallar

Ósáttir stóðu vörð um stjórn Theresu May

Tæplega 1.600 um­sagnir um sam­göngu­á­ætlun

Auglýsing