Farþegaþota breska flugfélagsins British Airways lenti í Edinborg í Skotlandi í dag á leið sinni frá London en það kom farþegum nokkuð á óvart þar sem vélin átti að fara til Dusseldorf í Þýskalandi og vissi enginn neitt fyrr en flugvélin var lent í Skotlandi. Í ljós kom að áhöfn vélarinnar hafði fengið ranga flugáætlun í hendurnar, að því er BBC greinir frá.

Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að farið verði yfir verkferla hjá flugfélaginu og það krufið til mergjar hvernig rangri flugáætlun var komið í hendur flugmannanna. 

Daginn áður hafði vélinni verið flogið á milli London og Edinborgar svo það virðist vera sem að sama flugáætlunin hafi einfaldlega verið endurtekin en félagið hefur sent afsökunarbeiðni til farþeganna. 

Flugstjórinn er sagður hafa spurt farþeganna hve margir vildu halda áfram til Dusseldorf og rétti meirihluti farþega upp hendina. Samkvæmt farþega sem BBC spjallaði við hélt vélin svo áleiðis til Dusseldorf eftir rúma tvo tíma á flugvellinum í Edinborg.