Hluti bandarískra alríkisstofnanna hafa nú verið lokaðar í tuttugu og tvo daga. Ástæðan er sú að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitar að veita fjármagn til þess að opna stofnanirnar á ný nema hann fái þann 5.7 milljarð dollara sem til þarf til þess að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Starfsmenn FBI án launa 

Forsetinn hefur ítrekað neitað að skrifa undir fjárlög fyrir opinberar stofnanir til þess að hægt sé að opna dyr þeirra á ný. þar af leiðandi fengu 800 þúsund starfsmenn alríkisstofnanna ekki greidd laun í gær. Starfsmennirnir tilheyra hinum ýmsu stofnunum, til að mynda bandarísku alríkislögreglunni(FBI), söfnum á vegum hins opinbera eða starfsfólki sem stýrir flugumferð. 

Samkvæmt fréttastofunni AFP er um að ræða lengstu lokun í sögu Bandaríkjanna, en sú næst lengsta varði í 21 dag. Trump hefur dregið til baka fyrri yfirlýsingar um að hann ætlaði sér að lýsa yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum ef þingið kemst ekki að samkomulagi sem tryggi fjármagn til að reisa vegg á landamærunum við Mexíkó. Þá gæti hann líklega fundið fé fyrir vegginn án samþykkis þingsins. „Ég ætla ekki að gera það svona hratt,“ sagði hann á fundi í Hvíta húsinu og neyðarástandinu sem „auðveldri leið út.“ Hann sagðist þó enn vera að íhuga valmöguleikann og kvaðst eiga fullan rétt á honum. 

Forsetinn er iðinn á samfélagsmiðlum þar sem hann fjallar um hin ýmsu hugðarefni. Fyrir stuttu skrifaði hann á Twitter síðu sína að demókratar, sem eru í meirihluta í fulltrúadeild bandaríska þingsins, gætu bundið enda á lokanirnar á fimmtán mínútum. Hvatti hann almenna borgara til að hringja í þingmenn í sínu kjördæmi og hvetja þá til að samþykkja múrinn. 

„Segið þeim að koma því í gang!“ Sagði forsetinn og í öðru tísti bætti hann við: „Ég er í Hvíta húsinu að bíða eftir ykkur.“