Biðtími eftir þjónustu ADHD-teymis Landspítalans hefur lengst töluvert samkvæmt bréfi sem skjólstæðingur teymisins fékk sent í gær og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í bréfinu segir að skortur sé á fagfólki í teyminu og að framtíð þess og staðsetning innan heilbrigðiskerfisins sé óljós. „Unnið er að því að finna lausn.“

Starfsmaður teymisins sem Fréttablaðið ræddi við í gær vildi ekki tjá sig um innihald bréfsins og ekki teymisstjóri heldur. Óskað var eftir því að samskiptin færu í gegnum samskiptastjóra spítalans. Ekki hafði fengist svar við fyrirspurn Fréttablaðsins þegar blaðið fór í prentun í gær.