Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, segir að lenging fæðingar­or­lof sé á á­ætlun. Hann segir að hann muni leggja fram frum­varp á haust­þingi um lengingu þess í tíu mánuði frá og með næstu áramótum. Enn eigi þó eftir að stað­festa til­nefningar í starfs­hóp sem eigi að hefja störf í haust sem eigi að hefja vinnu við heildar­endur­skoðun laga um fæðingar- og for­eldra­or­lof.

„Það er gert ráð fyrir því að fyrsta skrefið í lengingunni taki gildi um ára­mótin og það kemur frum­varp um það næsta haust. Það er til fjár­magn í það. Allt sem að var sett inn í lífs­kjara­samninginn, það er gert ráð fyrir því,“ segir Ás­mundur Einar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Á næsta ári eru 20 ár frá því að lög um fæðingar- og for­eldra­or­lof tóku gildi.Ás­mundur til­kynnti í mars á þessu ári um lenginguna, stuttu eftir að hann breytti reglu­gerð um há­marks­greiðslur til for­eldra og hækkaði há­markið til foreldra í fæðingarorlofi.

„Við erum að bíða eftir til­nefningu í starfs­hópinn þannig hann mun fara af stað og vinna næsta vetur og kynna nýtt frum­varp á árinu 2020 sem hann mun vinna og fara yfir ýmis á­lita­mál sem hafa komið upp í fæðingar­or­lofs­kerfinu síðustu 20 ár,“ segir Ás­mundur.

Hann býst við því að frum­varpið verði til á næsta ári og verði tekið fyrir á haust­þingi árið 2020.