Stjórnarflokkarnir hafa náð lendingu í ágreiningi sem ríkt hefur um útfærslu á fæðingarorlofi en frumvarp er nú til afgreiðslu í þinginu um að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs úr tíu mánuðum í tólf. Í frumvarpinu var upprunalega gert ráð fyrir að hvort foreldri fyrir sig fengi sex mánuði í orlof en gæti framselt fjórum vikum til hins foreldrisins. Ákveðið hefur verið að rýmka þennan framsalsrétt úr fjórum vikum í sex.

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna og framsögumaður velferðarnefndar, staðfesti við Fréttablaðið að frumvarpið hafi verið afgreitt úr nefnd í morgun með þessum breytingum. Ágreiningur hefur ríkt innan stjórnarflokkanna um hversu mikill sveigjanleiki á að vera í skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra. Hann kemur meðal annars fram í grein Vilhjálms Árnasonar, nefndarmanns Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd, sem birtist á Vísi í gær.

Vilhjálmur hefur talað fyrir auknum sveigjanleika og tekið undir með tillögum ýmissa samtaka á borð við Barnaheillar og Ljósmæðrafélags Íslands. Í grein sinni í gær stakk Vilhjálmur upp á að haga skiptingunni þannig að foreldrar gætu framselt tveimur mánuðum til hins í stað eins. Ljóst er að farin hefur verið millileið í málinu og endanleg lending á skiptingunni verða sex vikur sem foreldrar geta framselt, það er einn og hálfur mánuður.

Hann segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hann hafi skrifað undir álit meiri­hluta vel­ferðar­nefndar um þessa breytingu en þó „með fyrir­vara um þennan þátt frum­varpsins". Hann segir frum­varpið í heild sinni skref í rétta átt en hefði viljað sjá enn meiri sveigjan­leika í skiptingu or­lofsins milli for­eldra eins og hann gerði grein fyrir í gær. Hann kveðst þó sáttur við að hægt hafi verið að rýmka rétt for­eldranna til að fram­selja or­lofinu um tvær vikur.

Í samtali við Fréttablaðið segir Ólafur Þór að menn hafi þurft að lyfta sér aðeins upp fyrir ágreining um skiptinguna og átta sig á því að meginmálið sé að tryggja foreldrum og börnum rétt til að vera lengur saman eftir fæðingu. Hann gerir ráð fyrir að kosið verði um málið á þinginu á morgun og að frumvarpið verði samþykkt. Breytingin tekur þá gildi 1. janúar næstkomandi.

Umræðan um rétt foreldra til að skipta á milli sín hluta fæðingarorlofsins snýst ekki síst um jafnréttismál. Samtök atvinnulífsins höfðu lýst yfir stuðningi sínum við frumvarpið þegar aðeins var gert ráð fyrir því að foreldrar framselt fjórum vikum orlofsins og bent á að með minni sveigjanleika í þessu atriði skapist jafnari staða kynjanna á vinnumarkaði. Þannig er ekki hætt við að mæður taki mun lengra fæðingarorlof en feður en það gæti skapað ójöfnuð á vinnumarkaði.

Fleiri jákvæðar breytingar

Ólafur Þór segir að fleiri mikil­vægar breytingar sé að finna í frum­varpinu. Ein sú stærsta sé að for­eldrum, sem búa fjarri fæðingar­stað, hefur nú verið tryggður réttur til or­lofs tveimur til fjórum vikum fyrir fæðinguna til að koma og dvelja á fæðingar­stað.

Einnig hefur ein­stæðum og ein­stökum for­eldrum verið auð­veldað mjög að sækja sér rétt til að fá ein alla tólf mánuði fæðingar­or­lofsins.