Lena Einars­dóttir, íbúi á Blöndu­ósi, rak upp stór augu þegar henni varð litið í glugga­kistuna í stofunni á heimili sínu í morgun. Þar hafði skógar­þröstur unnið ötul­lega að því að koma sér upp hreiðri og það með góðum árangri. Í hreiðrinu eru fimm egg sem bíða þess nú að klekjast út.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Lena að um­ræddur gluggi sé á annarri hæð og snúi í suður­átt. Hún sé nær alltaf með hann opinn, sér­stak­lega þegar hlýnar í veðri á vorin og sumrin.

„Svo er ég með mynd sem ég á enn­þá eftir að hengja upp á vegg og hún hallar upp að glugga­kistunni. Þannig að þetta er orðið svo­lítið skjól. Þrösturinn hefur notað tæki­færið og búið til hreiður,“ segir Lena og bætir við að hún hafi ekki haft hug­mynd um þetta fyrr en hún rak augun í hreiðrið í morgun.

Hún ætlaði að fara að pakka inn pakka á stofu­borðinu þegar hún rak augun í eitt­hvað sem virtist vera fugla­drit.

„Þegar ég leit í glugga­kistuna sá ég gras úti um allt og þegar ég kíkti betur þá flaug þrösturinn úr hreiðrinu,“ segir Lena. Hún segir ekkert annað koma til greina en að leyfa þrestinum að koma ungunum á legg og ætlar hún ekki að hrófla við hreiðrinu í glugga­kistunni.

Það gætu því verið for­vitni­legir tímar fram­undan á heimili Lenu, sér­stak­lega eftir að ungarnir klekjast út og verður vafa­lítið eitt­hvað um fal­legan fugla­söng á heimilinu.

Lena segir að fuglinn sé ekki styggur og var hún til dæmis inni í stofunni meðan hún ræddi sím­leiðis við blaða­mann. Lá þrösturinn makinda­lega í hreiðrinu á meðan.

„Hún treystir mér alveg. Þetta er ef­laust fugl sem er búinn að vera hér á svæðinu í ein­hver ár og það fer á­gæt­lega um hana. En þetta er nokkuð sér­stakur staður til að verpa á,“ segir hún að lokum.

Lena passar upp á að þrösturinn hafi nóg að kroppa í meðan hann liggur á eggjunum.
Mynd/Aðsend
Glugginn er á 2. hæð hússins og í ágætu skjóli frá veðri og vindum.
Mynd/Aðsend