„Ég er ekki alveg með tæknimálin á hreinu en ég veit að það er besta að endurnýja pakkann í heild sinni því annars geta kerfin ekki lengur talað saman –þess vegna er upphæðin svona há,“ segir Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, en félagið hefur óskað eftir við Akureyrarbæ að bærinn setji um 61 milljón króna í að endurnýja hljóð- og ljósakerfi, bæði í Hofi og Samkomuhúsinu.

Í nýlegri gagnrýni Fréttablaðsins um söngleikinn Galdragáttina sem sýndur var í Samkomuhúsinu, var sérstaklega minnst á að hljóðburður væri ófullnægjandi. Þar er hátalarakerfið komið til ára sinna. Magnarar voru keyptir árið 1992 og hátalararnir 2005. Allur skýrleiki og hljómgæði að mestu horfin og þeir ráða ekki við flóknari verkefni.

Á barnasöngleiknum Gallsteinum afa Gissa þurfti að stoppa frumsýningu vegna bilunar og í annað sinn varð að stöðva sýningu tvívegis og senda áhorfendur út úr salnum á meðan viðgerð stóð yfir.

Ástandið í Hofi er ögn skárra. Þar er hljóðkerfið orðið tíu ára og hefur bilað meðal annars á Abba- tónleikum. Hljóðkerfið byggist á tölvubúnaði en orðið hafa miklar tækniframfarir í stýrikerfum sem fylgja þarf eftir með nýjum búnaði.

Þá hefur framleiðslu á þeim ljósabúnaði sem keyptur var í Hof þegar húsið var opnað verið hætt og perur í búnaðinn því ófáanlegar.

„Við viljum hafa tækjabúnaðinn sem bestan og því þarf að endurnýja. Heildarpakkinn er upp á 60 milljónir en það er spurning hvort við getum gert þetta í áföngum,“ segir Þuríður og bætir við að það sé bagalegt að hafa sýningu með lélegt hljóð. „Það borgar sig að gera gagngerar endurbætur,“ segir hún.

Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélag Akureyrar