Aðgengi að hraðprófum er misskipt eftir landshlutum. Aflýsa hefur þurft viðburðum utan Höfuðborgarsvæðisins vegna þess að aðgengið er lélegt, segir menningarfulltrúi á Suðurlandi.

Leyft er nú sitjandi menningarviðburði fyrir allt að 500 manns með því skilyrði að allir sem tónleikana sækja fari í þar til gerð hraðpróf.

Vegna lélegs aðgengis hefur þurft að aflýsa tónleikum í Skálholti fyrir jólin þar sem Sinfóníuhljómsveit Suðurlands ásamt söngvurum geta ekki boðið upp á hraðpróf.

Ása ræddi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og aðspurð um vilja þar til lausna segir hún: "Hann var enginn".

Aðgengið ekki raunhæft

„Margir þurfa að ferðast í einn til þrjá klukkutíma á vinnutíma, til að komast í hraðpróf hjá sínum heilsugæslum. Þannig er það t.d. á Suðurlandi en þar eru hraðprófin einungis í boði á Selfossi, Höfn og í Vestmannaeyjum frá kl. 9-12 á virkum dögum. Þar er sem sagt ekki hægt að komast í próf um helgar og ekki heldur seinni part dags, þannig að fólk geti skotist eftir dagvinnu.

Þetta er ekki mjög hvetjandi og mun vafalaust draga verulega úr aðsókn á menningarviðburðum á Suðurlandi og landsbyggðinni allri, sér í lagi þeim sem ekki fara fram á þeim örfáu stöðum þar sem hraðprófin eru þó framkvæmd“, segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, menningarstjórnandi á Suðurlandi sem ræddi þessi mál á Fréttavaktinni á Hringbraut í vikunni.

Reykjavík með góða þjónustu

Í Reykjavík eru allavega fjórir aðilar sem bjóða upp á hraðpróf og þar á meðal Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sem býður upp á þessa þjónustu á milli Klukkan 8-20 alla virka daga og frá kl. 9-15 á laugardögum. Þetta gerir það að verkum að það geta allir íbúar á höfuðborgarsvæðinu, óháð vinnutíma sínum skotist í hraðpróf. Þetta gerir viðburðahöldurum þá kleift að halda sínu striki með langflesta viðburði, stóra sem smá, bendir Ása á.

Það myndi jafna stöðuna talsvert ef að það væri hægt að fara í hraðpróf á öllum heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og víðar um land, á föstudögum og bjóða upp á laugardagsopnun á stærstu stöðunum, líkt og gert er í Reykjavík.

Uppfærð frétt

Eftir umfjöllun á Fréttavaktinni á Hringbraut hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands sent frá sér þessa til kynningu:

Frá og með 27. nóvember 2021 verður farið að skima bæði hraðpróf og PCR á laugardögum.  Byrjað verður næsta laugardag 27. nóvemer og opnun verður frá kl. 10-13.

Laugardagsskimun verður í gangi meðan þörfin kallar á þessa viðbótaropnun og fyrirkomulag hefðbundið eins er á virkum dögum. Allir verða að hafa strikamerki!