Ný könnun sýnir að varnir bandarískra hjúkrunarfræðinga gegn COVID-19 sýkingu eru lélegar. Starfsfólk fær fá próf, þarf að endurnýta hlífðarfatnað og sé orðið vant því að vinna í aðstæðum sem séu hættulegar heilsu þess.

„Við höfum vitað í mörg ár að við erum eftir á,“ segir Jean Ross, forseti bandaríska hjúkrunarfræðingasambandsins. Það sé ekki vegna þess að ekki sé hægt að fjármagna aðbúnaðinn, heldur sé kerfið sjálft græðgisvætt og spítalar þurfi að skila eigendum arði.

Alls svöruðu 23 þúsund hjúkrunarfræðingar í öllum 50 fylkjunum könnuninni í apríl og maí. 84 prósent höfðu ekki fengið COVID-19 próf og 87 prósent voru neyddir til að endurnýta hlífðargalla og grímur. 72 prósent störfuðu án þess að húð þeirra væri að fullu varin. Stór hluti þeirra sem hefur verið prófaður hefur reynst vera sýktur af veirunni.

Gríðarleg samkeppni er um hlífðarfatnað á heimsmörkuðum og einnig í Bandaríkjunum. Hafa sum fylki og spítalar leitað til ofurríkra einstaklinga um hjálp til að útvega og fjármagna kaupin.