Kjörsókn er með lægra móti í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi í dag. Klukkan fimm að staðartíma höfðu um 65 % kjósenda greitt atkvæði, sem er 4,4 prósentum minna en á sama tíma í forsetakosningunum 2017. Kjörsókn á þessum tíma dags hefur ekki verið lægri frá árinu 2002, en þá höfðu aðeins 58,45 % greitt atkvæði.

Kjörsóknin hefur verið sérstaklega léleg í París, en þar mældist hún aðeins 52,17 % klukkan fimm, sem er meira en tólf prósentustigum minna en á sama tíma árið 2017. Þó hefur verið tekið eftir löngum röðum kjósenda sem hafa safnast upp við kjörstaði í borginni.

Árið 2002 stuðlaði lág kjörsókn og hátt hlutfall auðra kjörseðla og mótmælaatkvæða að því að Jean-Marie Le Pen, frambjóðandi öfgahægrimanna, komst öllum að óvörum í aðra umferð kosninganna og atti þar kappi við sitjandi forsetann Jacques Chirac. Öldin er nú önnur og dóttir Jean-Marie, Marine Le Pen, þykir næsta örugg um að komast í seinni umferðina ásamt sitjandi forsetanum Emmanuel Macron, sem sækist eftir endurkjöri.

Macron mælist enn fremstur í flestum skoðanakönnunum, en forskot hans á Le Pen hefur skroppið verulega saman á undanförnum vikum. Macron hafði afgerandi forystu þegar stríðið í Úkraínu hófst en Le Pen hefur saxað talsvert á forskot hans með því að leggja meiri áherslu á innanríkismál eins og verðbólgu og kaupmátt. Í sumum könnunum mælast varla nema eitt til tvö prósent milli þeirra í seinni umferð kosninganna.