Dagskrá Útipúkans hefur vakið töluverða athygli á síðustu dögum en konur munu taka yfir útisvið Innipúkans um helgina. Útipúkinn er haldin í fyrsta skipti í ár og stendur fyrir þéttri dagskrá utandyra samhliða Innipúkanum úti á Granda. „Þetta er alveg geðveik dagskrá, þó ég segi sjálfur frá,“ segir Einar Stefánsson, tónlistarmaður og viðburðarstjóri Red Bull.

Kynjahlutvarpinu kollvarpað

Aðspurður segir Einar að það hafi verið með vilja gert að bóka aðeins kvenkyns listamenn. „Ég pæli alltaf í kynjahlutfallinu þegar ég er að skipuleggja viðburði og byrja oftast á því að hafa samband við kvenkyns listamenn. Þegar ég fór af stað í ár byrjaði ég að spá ‚hvað ef ég bóka bara konur til að spila?‘.“

Einar segir að merkilega fljótt eftir þess ákvörðun hafi hann verið með fullbókaða dagskrá af þekktum plötusnúðum og tónlistarkonum. „Þetta eru allt mjög fjölbreyttir plötusnúðar úr ólíkum áttum með mismikla reynslu, sumir hafa verið í bransanum í mörg ár og hafa spilað á stórum klúbbum á meðan aðrir eru úr meira hljómsveitarumhverfi og koma með sína sýn þaðan.“

Léleg afsökun árið 2019

Einar furðar sig á yfirlýsingum þess efnis að ekki sé til nóg af kvenkyns listamönnum en að hans sögn var lítið mál að finna konur til að spila á hátíðinni. „Það er 2019 og nóg af flottum tónlistarmönnum sem eru konur í dag,“ segir Einar og bætir við að honum þyki léleg afsökun hjá hátíðarhöldurum að erfitt sé að finna tónlistarkonur á Íslandi.

„Það er svo oft haldnir viðburðir þar sem dagskráin er yfirtekin af karlmönnum fyrir utan kannski eina eða tvær konur.“ Hann segir Útipúkann í ár vera óformlegt andsvar við þeirri reglu og tekur fram að ákveðið hafi verið að auglýsa það ekkert sérstaklega að listamennirnir í ár yrðu konur.

Innipúkinn 2018 sló vægast sagt í gegn.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þarf ekki endilega karla

„Ég held að fólk sé ekki alveg búið að ná því að það eru fullt af flottum plötusnúðum sem eru konur og það er auðveldlega hægt að halda svona viðburð án þess að hafa karla á dagskrá.“ Einar lýsir heimi plötusnúða sem mjög karlægum og segir mikilvægt að konur séu sýnilegar þannig að stelpur geti átt sér fyrirmyndir sem auðvelt er að spegla sig í. „Því fleiri fyrirmyndir sem eru til staðar þeim mun líklegra er að stelpur muni byrja að hugsa ‚hey ég get alveg verið plötusnúður‘.“

Bitnar ekki á dagskránni

Einar segir dagskránna ekki líða fyrir kynjakvótann þvert á móti lofar hann brjáluðu stuði og fjölbreyttri tónlistarupplifun. „Það verður geggjuð stemmning og enginn ætti að missa af þessari snilld.“

Útipúkinn verður haldin 2. – 4. ágúst á höfninni fyrir aftan Bryggjuna Brugghús og Messan en fram koma meðal annars GDRN, Bríet, Svala, DJ Katla, DJ Sunna Ben, Vök og fleiri.

Svala kom fram fyrir fullum sal á hátíðinni í fyrra.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari