Drög að skýrslu Sam­einuðu þjóðanna sem lak til fjöl­miðla á mið­viku­dag málar upp ljóta mynd af á­hrifum lofts­lags­breytinga á heiminn næstu þrjá­tíu árin. Þetta kemur fram í frétt hjá Al Jazeera.

Milli­ríkja­nefnd Sam­einuðu þjóðanna um lofts­lags­mál (IPCC) vinnur nú að 4000 blað­síðna skýrslu fyrir hönd SÞ sem stendur til að kynna í febrúar 2022. Skýrslan er sú sjötta í röðinni en sam­bæri­legar skýrslur hafa verið gefnar út frá árinu 1990. Drögin láku til frétta­stofu AFP í fyrra­dag en unnið er að loka­út­gáfu.

Skýrslan gefur til kynna að lofts­lags­breytingar munu breyta lífi á jörðu til muna jafn­vel ef tekst að hemja losun gróður­húsa­loft­tegunda.

„Við þurfum að endur­skil­greina lifnaðar­hætti okkar og neyslu,“ er meðal þess sem segir í skýrslunni.

Á næstu 30 árum má búast við út­dauða tegunda, fjölgun far­aldra, ó­bæri­legum hita, hruni vist­kerfa og hækkandi sjó.

„Það versta er enn eftir og mun hafa mun meiri á­hrif á líf barna okkar og barna­barna en okkar eigin,“ segir í skýrslunni.

Lofts­lags­á­föll hafa áður fyrr ollið stór­felldum breytingum á um­hverfinu og út­dauða flestra tegunda.

„Líf á jörðu getur lifað af stór­felldar lofts­lags­breytingar með því að þróast að nýjum tegundum og vist­kerfum, en það geta mann­eskjur ekki,“ segir í skýrslunni.

Kóral­rif nái ekki að að­lagast

Nú þegar hefur meðal­hita­stig heims hækkað um 1,1 gráðu celsíus frá miðri 19. öld. Parísar­sátt­málin, undir­ritaður af um tvö hundruð þjóðum, setti það mark­mið að passa að hlýnun fari ekki mikið hærra en 1,5 gráður en með nú­verandi stefnu er spáð að hækkun muni nema að minnsta kosti 3 gráðum.

Skýrslan gefur til kynna að jafn­vel 1,5 gráðu hækkun muni valda lang­tíma eða jafn­vel ó­aftur­kræfum af­leiðingum. Kóral­rif eru dæmi um tegund sem mun mögu­lega ekki geta að­lagað sig að þeirri hækkun.

Til að berjast gegn þessum breytingum segir í skýrslunni að við munum þurfa „hegðunar- og kerfis­breytingar á öllum stigum: hjá ein­stak­lingum, sam­fé­lögum, fyrir­tækjum, stofnunum og ríkis­stjórnum.“