Leki hefur komið upp í Vestur­lands­byggingu Foss­vogs­skóla en miklar endur­bætur voru gerðar á hús­næðinu í haust vegna raka­skemmda. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg.

Þar kemur fram að lekið hafi með þak­gluggum sem endur­nýjaðir voru í haust. Lekinn hefur valdið sjáan­legum skemmdum á innra byrði þaksins. Líkt og Frétta­blaðið greindi frá lýstu for­eldrar yfir gífur­legum ó­á­nægjum vegna myglunnar í hús­næðinu og við­brögðum borgarinnar.

Í til­kynningu frá borginni kemur fram að reynt hafi verið að komast í veg fyrir lekann síðan í desember, án árangurs. Slæmt tíðar­far undan­farinna vikna hafi gert við­gerðar­mönnum erfitt fyrir. Segir að borgin muni ganga hratt og vel til veks um leið og færi gefst til að koma í veg fyri lekann.

Í til­kynningunni eru jafn­framt taldar upp fram­kvæmdir sem farið var í, í skólanum í sumar:

Endur­bætur vegna raka­skemmda innan­húss: Unnið var í öllum álmum, minnst í Austur­landi og mest í Vestur­landi. Víða var al­málað, sett ný gólf­efni, nýjar LED lýsingar, ný kerfis­loft, nýjar inn­réttingar og hand­laugar ofl. Unnið var að endur­bótum vegna raka­skemmda eftir for­skrift frá verk­fræði­stofunni Verkís og Náttúru­fræði­stofnun Ís­lands. Sam­hliða því gekk hluti fram­kvæmda út á að bæta inni­vist og hljóð­vist Foss­vogs­skóla.

Loft­ræsting: Settar voru nýjar öflugar loft­ræsti­sam­stæður í Vestur­land og Megin­land, á­samt um­tals­verðum endur­bótum á stofn­lögnum, endur­nýjun hljóð­gildra, inn- og út­sogs­rista ofl.

Endur­nýjun þaka Vestur­lands og Miðlands: Þök beggja álma voru endur­gerð að miklu leyti, settur á þau eld­soðinn pappi, klæðningar endur­nýjaðar að hluta, glugga­kerfi endur­bætt og nýtt báru­járn sett á þökin.

Gler­veggur í bóka­safni: Settur var nýr gler­veggur í bóka­safni.

Mat­salur og veggir á lóð: Settur var stór gluggi með tveimur flótta­leiðum á suður­vegg mat­sals, gerð að­staða innan­húss fyrir frí­stund, set­bekkir, tröppur og úti­geymsla sunnan við mat­sal.

Lóðar­frá­gangur: Á eystri hluti lóðar skólans voru settar öflugar frá­rennslis­lagnir yfir­borðs­vatns, stígur var mal­bikaður og lóðin þöku­lögð. Eftir er að ljúka frá­gangi í kringum veggi og set­bekki við mat­sal á­samt hellu­lögnum.

Reglu­bundið við­hald skólans: Sam­hliða ofan­skráðum fram­kvæmdum var unnið að reglu­bundnu við­haldi skólans eins og endur­nýjun raf­lagna, smá­spennu­lagna, lýsingar og gólf­efna.