Þrettán lögreglumenn á sjö lögreglutækjum tóku þátt í leit að þremur sjö ára strákum í gærkvöldi. Höfðu þeir farið í Öskjuhlíð í Reykjavík til að leika sér með talstöðvar en ekki skilað sér aftur, að sögn lögreglu.

Fjölmargir vinir og ættingjar drengjanna tóku þátt í leitinni og óskuðu eftir aðstoð lögreglu á níunda tímanum þegar drengirnir höfðu ekki sést í rúmar fjórar klukkustundir. Þá var búið að auglýsa eftir þeim á Facebook, er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Drengirnir fundust svo um hálftíma síðar við Klambratún og amaði ekkert að þeim. Til stóð að óska eftir aðstoð björgunarsveita áður en þeir fundust.

Björgunarsveitir kallaðar út vegna manns á Helgafelli

Rétt eftir miðnætti óskaði maður í göngu á Helgafelli í Hafnarfirði eftir aðstoð þar sem hann rataði ekki niður af fjallinu. Björgunarsveitir voru ræstar út til að aðstoða manninn.

Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg að mikil þoka hafi verið á fjallinu og maðurinn ekki verið viss um rétta leið niður. Björgunarmenn voru fljótir á staðinn og voru allir komnir niður á bílastæði um tvöleytið.

Um 01:21 var lögreglu tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Laugardal. Var þar brotin rúða í hurð, farið inn og stolið skiptimynt, að sögn lögreglu.

Þá voru bifreiðar stöðvaðar í miðborginni og Laugardal þar sem ökumenn voru meðal annars grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.