Björgunarsveitir voru kallaðar út um tíu leytið í gærkvöldi eftir að mannlaus bátur fannst á Álftavatni við Grímsnes, ofan við Þrastarlund.

Leitinni var hætt um miðnætti þar sem engin ummerki fundust um fólk, en óttast var að bátsverji hefði fallið frá borði. Um fimmtíu manns komu að leitinni og voru aðstæður til leitar góðar.

„Leit gekk í um tvo og hálfan tíma eða þar til talið var að búið væri að leita af allan grun í landi um að einhvers væri saknað og líkur leiddar að því að báturinn hafi losnað frá bryggju og rekið yfir vatnið eða verið tekinn í leyfisleysi og skilinn eftir.“ segir í tilkynningu Hjálparsveitinni Tintron.