Vinnustaðir eru með opin rými þar sem heyrist í kaffivélum í bland við reglulegar símhringingar. Skvaldur vinnufélaganna rennur saman við suðið í tölvunum sem hljómar undir niðri á meðan símarnir hringja. Úti er stöðugur umferðarniðurinn og reglulegar bílflautur og bremsuískur. Inn í þennan kokteil blandast högg frá smíðavinnu og hávaði frá vegagerð. Á sumrin eru það sláttuvélarnar sem eru bakgrunnstónninn á sólríkum sumardögum, einmitt þegar nýbúið er að stilla upp sólstólnum á pallinum.


Fyrir utan þennan utanaðkomandi hávaða eru ýmisleg hljóð sem við veljum okkur að hlýða á eins og að hlusta á tónlist og horfa á sjónvarp. Stundum er það gert í nafni þess að slaka á og njóta. Gott og vel en þegar sjónvarpið er bara á í bakgrunninum á meðan það er verið að gera annað og heyrnartólin eru alltaf á í göngutúrnum eða í heimanáminu með stærðfræðidæmunum, þá má velta fyrir sér hvort það sé örugglega hjálplegt að hlusta á eitthvað á meðan.

Hljóðmengun í hversdagslífinu er orðin svo algeng að það er erfitt að muna hvenær maður upplifði síðast algjöra þögn.

Hljóðmengun í hversdagslífinu er orðin svo algeng að það er erfitt að muna hvenær maður upplifði síðast algjöra þögn.
NordicPhotos/Getty

Öll hljóð eru ekki endilega hávaði, eins og tónlist sem mann langar að hlusta á (öfugt við lyftutónlist eða jólalög í október) sem hefur góð áhrif á mann eða náttúruhljóð á borð við seitlandi læk, en leitin að þögninni er ekki auðveld.


Fimm dagar í þögn


Anna Dóra Frostadóttir, sálfræðingur og núvitundarkennari hjá Núvitundarsetrinu, er nýkomin úr fimm daga þöglu hlédragi eða kyrrðardögum sem haldnir voru í Sólheimum í Grímsnesi. Hún segir þessa þöglu daga vera hugsaða til að dýpka núvitundariðkun sína.


„Við erum leidd í gegnum núvitundaræfingar í þögn með okkur sjálfum. Við tökum tíma til að vera með okkur og setjumst niður í sjálfsskoðun,“ segir Anna Dóra og útskýrir nánar: „Í gegnum æfingarnar erum við að þjálfa athyglina og vakna til vitundar um virkni hugans. Við tökum eftir því þegar hugurinn reikar burt og færum athyglina mjúklega aftur á það sem við erum að þjálfa athyglina til að hvíla á hverju sinni,“ segir hún en dæmi um það er að hvíla athyglina á önduninni.


Núvitundarþjálfun felur í sér „endurtekið stefnumót við sjálfan sig. Þar sem við leyfum athyglinni að falla inn á við og fylgjumst með eigin hugsunum, tilfinningum, líkamskenndum og hvötum koma og fara. Þetta er mild leið til að kynnast sjálfum sér.“

Anna Dóra Frostadóttir er núvitundarkennari.
Fréttablaðið/Eyþór

Hvernig er að vera fimm heila daga í þögn?


„Á hefðbundnum núvitundarnámskeiðum býr fólk við þetta daglega amstur og fer heim að hugleiða á meðan hundurinn geltir og börnin banka á hurðina. Það er yfirleitt eitthvert áreiti og þá er hjálplegt að geta leyft athyglinni að falla inn á við, sama hvað er í gangi. Þetta er mjög mikilvæg færni sem við erum að þjálfa, að ná að líta inn á við þrátt fyrir atið og áreitið allt um kring. En með því að fara í lengri tíma, eins og á kyrrðardaga, þá eru skapaðar aðstæður þar sem maður er í þögn og núvitundariðkunin nær að dýpka enn frekar. Fyrstu tvo, þrjá dagana er hugurinn oft enn þá að vinna úr þessum blessaða verkefnalista okkar og við erum enn víruð í takt við samfélagið. Það tekur tíma að komast í annað tempó þar sem maður er að þjálfa sig í bara „að vera“. Við erum alltaf svo mikið „að gera“. Þarna skapast skilyrði og tækifæri til að skoða af forvitni og mildi: Hvernig er það að vera ég og hvað er að gerast innra með mér? Og hlusta á svörin innra með sér.“

Það tekur tíma að komast í annað tempó þar sem maður er að þjálfa sig í bara „að vera“. Við erum alltaf svo mikið „að gera“


Virkja viskuna


Anna Dóra segir að algengt sé að á öðrum eða þriðja degi fari öldurnar í huganum að lægja. „Það má líkja þessu við snjókúlu, sem maður hristir og snjókornin fara á flug en hægt og rólega falla þau niður. Þá kemur þessi skýrleiki og yfirsýn. Þessar venjubundnu hugsanir falla niður og maður nær að stíga úr verkefnalistanum og dýpra inn í sjálfan sig, hlusta á sjálfan sig og vera til staðar í því sem maður er að gera. Þarna nær maður að virkja þessa visku sem býr innra með okkur öllum en við veitum okkur kannski ekki tækifæri, tíma eða skilyrði til að taka eftir og hlusta á.“

Það gefast sjaldnast tækifæri til að vera fimm daga í þögn. Hvað gerir þú til að vera í þögn þess á milli?


„Þá er það bara mín daglega núvitundariðkun, ég er með fasta tíma þar sem ég tek æfingu og staldra reglulega við í gegnum daginn til að núllstilla mig. Síðan er alltaf hægt að færa athyglina á öndunina sem getur reynst dýrmætt athvarf innra með okkur á hlaupunum,“ segir hún.


Þögn getur hjálpað til við að endurtengjast sjálfum sér en líka er mikilvægt að kunna að takast á við áreitið. „Það er máttur þjálfunar hugans að láta ekki trufla sig og geta fundið þögnina innra með sjálfum sér þrátt fyrir erilinn allt um kring,“ segir Anna Dóra.

Það þarf að minnka áreitið.
NordicPhotos/Getty

„Til þess að þjálfa sig í þeim bjargráðum þarf maður að hafa gefið sér reglulegan tíma með sjálfum sér, þetta kemur ekki bara allt í einu. Það er eðli hugans að reika burt og með hugarþjálfun er hægt að beisla hann aðeins og ná tökum á honum svo athyglin hvíli á því sem maður vill að hún hvíli á hverju sinni,“ segir hún, eins og til dæmis á önduninni í stað hávaðans í kring. „Við búum öll yfir þessum bjargráðum, það þarf bara að virkja þau.“


Hvað finnst þér?


Hraðinn og áreitið er mikið í þjóðfélaginu. „Eins og dagskipulag barna í dag þar sem nánast hver klukkutími er bókaður. Það gefst lítill tími fyrir þau að fá bara „að vera“ og kynnast sjálfum sér í stað þess að sogast inn í ský samfélagsins,“ segir Anna Dóra en mikilvægt er að börnin fái tækifæri til að velta fyrir sér hvað þeim sjálfum finnst, ekki bara því sem samfélagið segir að sé töff og sniðugt.


„Þessi kyrrð og hugarró sem við leitum að næst ekki endilega þegar heimurinn staðnæmist og allt fellur í ljúfa löð heldur kannski einmitt með því að ná þessu innra með sér og leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru og vera í tengslum við sjálfan sig. Ef ásetningurinn er að vera bara með þessari innöndun og þessari útöndun þá næst þessi hugarró með sjálfum sér jafnvel þó það sé ys og þys allt um kring.“

Ef maður er að hlusta á barnið sitt, að hlusta á það heilshugar án þess að vera að gera eitthvað annað á sama tíma.


Eitt í einu


Er mikilvægt að minnka áreitið þegar hægt er?
„Já, tvímælalaust og gera bara eitt í einu. Þegar maður er að borða, að vera bara að borða, ekki hafa sjónvarpið eða útvarpið í gangi. Ef maður er að drekka morgunkaffibollann, að veita þeirri upplifun alla sína athygli. Og ef maður er að hlusta á barnið sitt, að hlusta á það heilshugar án þess að vera að gera eitthvað annað á sama tíma, eins og að vinna í tölvunni eða búa til matinn eða eitthvað því um líkt.“

Mikilvægt er að gera bara eitt í einu og vera heilshugar til staðar.
NordicPhotos/Getty

Hún ítrekar mikilvægi þess að finna þögnina innra með sér. „Það getur verið styðjandi að skapa þessar aðstæður þar sem maður nær að vera í lengri tíma í þögninni en það er líka mikilvægt að virkja innri bjargráð til að leyfa þögninni að koma með í hversdagslífið og finna þögnina innra með sér líka. Sumir ætla sér að hugleiða en segja að það gangi ekki vegna vegaframkvæmda í nágrenninu eða umferðarhljóða en ef maður ætlar alltaf að líta á það sem hindrun, byrjar maður aldrei. Það er hjálplegt að reyna að skapa sér eins góð skilyrði og hægt er, hafa áhrif á það sem maður getur haft áhrif á en vera ekki með óraunhæfar væntingar. Finna leiðir til að skapa okkur innri frið og þögn þrátt fyrir áreitið allt um kring,“ segir Anna Dóra og heldur áfram:


„Sumir eiga erfitt með að þola við í þögninni, kunna illa við hana og forðast hana með ýmsum hætti. Sumir eru hræddir við hverju þeir mæta þegar þeir mæta sjálfum sér og ýta í burtu upplifun sinni, hvort sem það er kvíði, hræðsla eða annað. En ef við ýtum okkur alltaf í burtu eða höfnum okkur, þá náum við aldrei að gangast við okkur eins og við erum, samþykkja okkur eða þykja vænt um okkur sjálf.“

Lengur að læra með tónlist í eyrunum

Dr. Helga Rut Guðmundsdóttir er prófessor í tónlistarfræðum á menntavísindasviði Háskóla Íslands en rannsóknir hennar hafa aðallega verið á sviði tónskynjunar og tónlistarþroska barna.

Ef þú lætur fólk gera eitthvað eins og lesskilningsverkefni eða leysa einhverjar þrautir með tónlist eða án tónlistar, þá er tónlist yfirleitt truflandi, hún dregur yfirleitt úr getu fólks til að leysa verkefni og þau taka lengri tíma,“ segir Helga Rut.

„Ef heili er skannaður sem er í þögn eða að hlusta á tónlist þá er miklu meira að gerast í heila þess sem er að hlusta á tónlist. Heilinn gerir í raun og veru ekki margt í einu þannig að við þurfum að vera að skipta athyglinni frá tónlistinni yfir á það sem við erum að gera þannig að tónlist í bakgrunninum er alltaf að ræna athyglinni,“ segir hún en almennur bakgrunnshávaði hefur líka þannig áhrif.

Dr. Helga Rut Guðmundsdóttir er prófessor í tónlistarfræðum á menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Mikið í gangi í hausnum


Helga Rut segir að það sé mikið í gangi í hausnum þegar við heyrum tónlist. „Það eru ekki bara heyrnarstöðvarnar sem fara í gang heldur líka hreyfistöðvarnar. Stærra svæði heilans virkjast hjá fólki sem hefur lært á hljóðfæri en annarra, sem útskýrir hvers vegna tónlistarfólk á oft erfiðara með bakgrunnstónlist. Allt sem það er búið að læra í tónlist fer í gang, öll þessi ósjálfráða greining, því þessi svæði sem þarna reynir á stækka við tónlistarnám.“


Helga Rut útskýrir að tónlist með takti sem er vel undir hvíldarpúlsi, sem er oft á milli 60 og 70, virki róandi. „Ef þú hlustar á tónlist sem er 40 slög á mínútu þá virkar hún róandi hvort sem þú þekkir hana eða ekki. Sömuleiðis virkar tónlist með 120 slög á mínútu örvandi á alla. Til dæmis hreyfa lítil börn sig ósjálfrátt við tónlist því heilinn bregst við taktslagi. Um leið og heilinn heyrir reglulegt taktslag sýnir hann viðbragð millisekúndum áður en næsta taktslag kemur.“

Ég er líka á móti því að spila tónlist fyrir bumbuna. Við mótumst í hjartslætti móðurinnar og við rödd hennar, það sem hún talar og syngur, en það er mikið inngrip að setja einhvern hávaða á fóstur sem er að þroskast.


Oförvun varasöm


Tónlist er ekki góð við öll tækifæri og það þarf að muna eftir þögninni. „Það er alltaf hætta á oförvun hjá mjög ungum börnum. Ég er líka á móti því að spila tónlist fyrir bumbuna. Við mótumst í hjartslætti móðurinnar og við rödd hennar, það sem hún talar og syngur, en það er mikið inngrip að setja einhvern hávaða á fóstur sem er að þroskast. Það er ekkert sem bendir til þess að við eigum að vera að senda tónlist sérstaklega inn í móðurkvið,“ segir Helga Rut.

„Það er ákveðin hvatning eða umbun að hafa tónlistina í gangi en það er alveg öruggt að ef þú myndir slökkva alveg og hafa þögn og einbeita þér myndirðu leysa verkefnin hraðar,“ segir Helga Rut.
NordicPhotos/Getty

„Það er vitað að mjög lágstemmd tónlist hjálpar fyrirburum, styttir tímann sem þeir þurfa að vera á vökudeild og þeir dafna betur. Súrefnisupptaka í blóði er betri með lágstemmdri vögguvísutónlist en það þarf að gera þetta undir eftirliti sérfræðinga vegna þess að oförvun getur verið hættuleg og það þarf líka að gæta að hvíld og þögn.“


Hvernig upplifir þú þögn? Finnst þér mikilvægt að vera í þögn?


„Já, og ég held að allir sem vinna með tónlist, eins og tónlistarkennarar sem eru með tónlist í eyrunum allan daginn í sinni vinnu, vilji hafa þögn þegar þeir koma heim. Ég heyri marga tónlistarkennara tala um það. Þeir fara ekki heim og kveikja á útvarpinu eða setja tónlist á fóninn, allavega ekki meðan þeir eru að jafna sig eftir vinnuna,“ segir hún.


Þögnin lífsnauðsynleg


„Við þurfum svefn, hann er lífsnauðsynlegur, og ég held að það sé eins með þögnina. Ef við erum alltaf með einhverja síbylju í eyrunum, þá er of mikil örvun í heilanum því heilinn er aldrei alveg hlutlaus; hann er alltaf að greina það sem við heyrum. Hann tekur við áreitinu og er að greina það og þess vegna er svo mikilvægt að við gefum hausnum tækifæri til að hlaða batteríin.“

Ef við erum alltaf með einhverja síbylju í eyrunum, þá er of mikil örvun í heilanum því heilinn er aldrei alveg hlutlaus; hann er alltaf að greina það sem við heyrum.


Að sama skapi er hægt að nota hressa tónlist markvisst til örvunar eins og í íþróttaiðkun. „Þú getur notað tónlist til að örva þig og rannsóknir sýna að fólk endist lengur á þrekhjóli ef það er með tónlist í eyrunum. Það nær meiri árangri og betri súrefnisupptöku svo þetta hefur bein áhrif á hversu öflug æfingin er. Fólk notar þetta sem hvatningu og það er auðveldara að reyna meira á sig með tónlist sem er stíluð inn á að vera 120 slög á mínútu eða hærra.“


Öflugast að taka beinu brautina


Áreitið er mikið úti um allt, stundum hvetjandi, en oftar en ekki truflandi. Helga Rut segir að fólk sem noti tónlist til að koma sér í gírinn og einbeita sér við lærdóm sé þá að taka fjallabaksleiðina. „Það er kannski skemmtilegra en þú ert örugglega lengur að komast á leiðarenda. Það er öruggt að þú ert lengur að læra sama hlutinn ef þú ert með tónlist í eyrunum heldur en þegar það er þögn. Það er búið að sýna fram á þetta með mörgum rannsóknum. Það er ákveðin hvatning eða umbun að hafa tónlistina í gangi en það er alveg öruggt að ef þú myndir slökkva alveg og hafa þögn og einbeita þér myndirðu leysa verkefnin hraðar. Fjölmargar rannsóknir sýna þetta og hefur jafnvel verið skoðað eftir mismunandi persónuleikum, intróvertum og extróvertum, en persónugerð hefur lítil sem engin áhrif. Almennt er tónlist í bakgrunni truflandi. Þetta er góð vitneskja að hafa. Kannski viltu alltaf taka útsýnisleiðina en það er öflugast að taka beinu brautina.“