Leitin að sjómanninum Ekasit Thasaphong sem féll frá borði Sighvats GK-57 á laugardaginn mun halda áfram í dag en hún fer nú fram neðansjávar.
Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
„Áhöfnin á varðskipinu Þór heldur áfram leitinni í dag að skipverjanum og í dag verður leitað með neðansjávarfari sem kemur frá Teledyne Gavia. Það er að segja á því svæði sem talið er að maðurinn hafi fallið fyrir borð,“ segir Ásgeir en tekin var ákvörðun í gær um það að leita til Teledyne Gavia til þess að fá afnot af búnaðinum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar verður einnig nýtt til leitar í dag.

„Þetta neðansjávarfar er búið sérstakri hliðarhljóðsjá sem nýtist við athugun hafnsbotnsins. Því fóru sérfræðingar frá Teledyne Gavia, ásamt sérfræðingum frá sjómælingu og siglingaöryggis deildinni hjá Landhelgisgæslunni um borð í Þór í morgun til þess að aðstoða við leitina sem hefst núna í birtingu," segir Ásgeir.