Næstu helgi er á­ætlað, ef veður leyfir, að halda á­fram leit að Páli Mar Guð­jóns­syni og bif­reið hans, sem hafnaði í Ölfus­á, þann 25. febrúar. Fram­kvæmdar verða svo­kallaðar fjöl­geisla­mælingar á botni gjárinnar neðan Ölfus­ár­brúnnar.

Náist góðar myndir með mælingunum er mögu­leiki á að hægt sé að stað­setja bíl Páls. Bíll Páls er þó alls ekki sá fyrsti sem hafnar ofan í ánni eða gjánni en að sögn Arnars Þórs Egils­sonar, kafara hjá ríkis­lög­reglu­stjóra, er mögu­leiki á að hægt verði að greina á milli tækja og annars brota­járns sem er að finna á botninum, verði myndirnar skýrar. Til þess að ná góðum myndum verður að vera hægt að sigla á jöfnum hraða og á jafnri stefnu með mælinga­tækið. Slíkt hefur aldrei verið gert áður í svo straum­harðri á. 

Lög­reglan á Suður­landi stjórnar að­gerðunum en nýtur lið­sinnis Björgunar­fé­lags Ár­borgar, sér­sveitar ríkis­lög­reglu­stjóra og sér­fræðinga Land­helgis­gæslu við að fram­kvæma mælingarnar sem mæla bæði lögun og dýpi gjárinnar neðan Ölfus­ár­brúnnar.

Arnar Þór, kafari hjá sér­sveit ríkis­lög­reglu­stjóra, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að mælingar sem þessar hafi ekki verið fram­kvæmdar við eins að­stæður og eru í Ölfus­ánni. Straumurinn sé mikill og skyggni lítið

„Sam­skipti neðan vatns eru nánast ein­göngu fram­kvæmd með hljóð­bylgjum,“ segir Arnar Þór. Hann út­skýrir að mælingar á botni vatns eða sjávar eru yfir­leitt fram­kvæmdar með einnar hljóð­bylgju­sendingum en þannig séu ein­göngu fengin gögn um dýpt, en ekki hvað mögu­lega liggi á botninum.

„Þú ert með tæki sem sendir úr hljóð­bylgju og þegar hún nær á botninn þá endur­sendist hún til baka. Sá tími sem það tekur, þannig mælirðu dýpið. Það er dýptar­mæling í sinni ein­földustu mynd,“ segir Arnar.

Tæki sem sendir margar bylgjur í einu

Slíkar einnar hljóðbylgjumælingar eru þær einu sem nú þegar hafa verið framkvæmdar á gjánni og botni Ölfusár. Mælingarnar, sem voru framkvæmdar af EFLA verkfræðistofu, leiddu í ljós að gjáin er um þrettán metra djúp. 

Arnar segir að fjölgeislamælingin byggi á sömu hugmyndafræði og tækni og einnar hljóðbylgjumælingar, nema að þar séu margir geislar eða bylgjur, sem geti þannig mælt meira. 

„Þá erum við með tæki sem sendir frá sér æði margar bylgjur í einu og þar af leiðandi ertu að ná að kortleggja eða taka mun meira svæði í leit,“ segir Arnar. 

Hann segir að ofan á þessar mælingar séu framkvæmdar eitthvað sem hann kallar á íslensku hliðarmælingar og kallast á ensku „side scan sonar“. Þær byggi á svipaðri tækni nema að þá er tæki sem sendir bylgjur út til hliðanna.

„Með þeim ertu að taka þetta endurkast og búa til kortlagningu af hlutum sem eru á hafsbotni sem valda skugga, ef það má orða það þannig. Þú ert kannski að senda út mjög margar bylgjur eða geisla á sama tíma og ert með búnað sem sendir þetta út og nær að lesa úr þessu. Það er að sem við erum að hugsa okkur í Ölfusánni, að beita þessi „side scan sonar“ tækni,“ segir Arnar.

Verða að sigla á jöfnum hraða og jafnri stefnu til að ná góðum myndum

Hann segir að tæknin hafi oft verið notuð og nýtist vel þegar verið er að leita að skipsflaki eða einhverju neðansjávar, en segir að það fari ávallt eftir því hversu vandaður búnaðurinn er hversu góðri upplausn myndirnar eru sem fást úr mælingunni.

„Við þurfum við að sigla með búnaðinn. Þetta er eins og flaug sem er dregin á eftir bátnum sem búnaðurinn er í. Kostirnir við búnaðinn eru að það eru minni áhrif sem veltingur á bátnum hefur og við náum að koma honum dýpra, en það er ekki endilega kostur í Ölfusánni,“ segir Arnar.

Hann segir að, sem dæmi, að þar sem að áin komi niður meðfram kirkjunni sé straumurinn óútreiknanlegur, auk þess sem það hefur líklega áhrif hversu sterkur hann er.

„Við vitum ekki hvernig kraftarnir hafa áhrif á þennan búnað. Það sem að skiptir hann svo miklu máli er að við náum að sigla á jöfnum hraða og jafnri stefnu, því ef við gerum það ekki, þá verða allar myndirnar bjagaðar. Þetta er pínulítið eins og taka mynd og hún er á hreyfingu og ekki í fókus. Það eru svipuð lögmál. Ef við náum ekki að halda þessu stöðugu og jöfnu þá erum við að fá gögn sem náum ekki að lesa í. Það er það sem maður er hræddur við í þessu máli, að vekja einhverjar vonir þegar við getum ekki sagt með vissu að okkur muni takast að safna nothæfum gögnum. En maður þekkir þessa tækni og við viljum endilega láta reyna á það að sjá hvort við getum það,“ segir Arnar.

Möguleiki á að fleiri en eitt ökutæki sé í gjánni

Ekki er um að ræða fyrsta skipti sem ökutæki fer niður í ánna og er því möguleiki á að í gjánni sé að finna fleiri en eitt ökutæki. Spurður hvort myndirnar sem fást úr mælingunni séu það skýrar að hægt sé að greina á milli segir Arnar að það fari allt eftir því hversu há upplausn er á tækinu sem notað verður. Búnaðurinn sem er notaður kemur frá Landhelgisgæslunni og því verða sérfræðingar frá gæslunni að aðstoða í aðgerðinni.

„Ef gögnin eru nógu góð þá myndi ég halda að við gætum greint á milli hvort það séu fleiri en einn bíll. Það væri hægt við bestu aðstæður, en ég hef aldrei sónarskannað við svona aðstæður áður,“ segir Arnar.

Straumurinn er bæði sterkur og óútreiknanlegur og því segir Arnar það gott að hafa Björgunarfélag Árborgar með í aðgerðinni. Þau þekki aðstæður best og á ánni.

„Þá reiðum við okkur líka á björgunarfélagið því þeir þekkja ánna vel og eru best til fallnir að hjálpa okkur og sigla með okkur, þannig við njótum liðstyrks þeirra, sem er frábært. Menn eru að leggja sig fram að reyna þetta. Maður vill vera vongóður,“ segir Arnar.

Ef þið sjáið eitthvað, er þá raunhæfur möguleiki að reyna að hífa það upp?

„Það er eitthvað sem að myndi byggjast á þessum mælingum. Hvar hugsanlegir hlutirnir eru. Við gerum ráð fyrir að ná góðum GPS punktum. Ef það gengur upp myndum við funda og leggja það í hendur Lögreglunnar á Suðurlandi ásamt sérfræðingum í slíkum björgunaraðgerðum. Það fer væntanlega eftir því hvað það væri langt úti, hvað er djúpt þar og annað,“ segir Arnar.

Skýrar myndir við góðar aðstæður

Hér að neðan má sjá tvær myndir sem eru teknar með svokölluðum hliðarbylgjumælingum. Önnur er af skipsflaki á Vestfjörðum og hin af skipsflaki í Kollafirði. Arnar segir að myndirnar séu teknar við kjöraðstæður og eins og má sjá eru þær mjög skýrar. Hann vonast til þess að hægt verði að ná svipuðum myndum neðan Ölfusárbrúnnar. 

Þrettán metra djúp gjá og lítið skyggni

Eins og fram kom að ofan hafa verið framkvæmdar mælingar fyrir neðan Ölfusárbrúnna sem hafi gefið til kynna að gjáin sé um þrettán metra djúp. „Án þess værum við alveg í myrkri,“ segir Arnar.

Hann segir að þótt svo að þrettán metrar virðist kannski ekki mikið, þá sé það mikið þegar litið er til styrks straums og skyggnis. Hann segir að miðað við straum væri til dæmis ekki hægt að kafa þarna og segir að jafnvel kafbátur myndir ekki geta siglt á móti honum.

„Sumir hugsa að það sé ekki neitt, en þetta er töluvert dýpi, sérstaklega ef litið er til kraftanna í straumi og lítils skyggnis. Það væri til dæmis ekkert vit í að kafa þarna. Þannig það eru áskoranir í þessu,“ segir Arnar.

Hann segir að tæknin sé ekki gallalaus en vonar að þeim verði að minnsta kosti kleift að staðsetja bílinn með því að framkvæma mælingarnar.

„Þetta eru djúpar pælingar í mjög sérhæfðri leit, en þetta snýr að þessum hliðarbylgjumælingum. Að við getum farið á ánna, siglt með búnaðinn og vonandi safnað þannig gögnum að við sjáum botninn og hvað er ofan á honum. Ég man ekki eftir því að þetta hafi verið gert áður, en þegar menn hjálpast að og koma saman til að gera þá vonar maður það besta,“ segir Arnar að lokum.