Jóns Þrastar Jónssonar hefur nú verið saknað í nærri tvær viku. Síðast sást til hans í Whitehall í Dyflinni. Jón fór til Dyflinnar í tíu daga ferð með konunni sinni, Kristjönu, til að taka þátt í pókerhátíð og til að skoða kastala. Eftir aðeins einn og hálfan dag hvarf hann. Jana segir að þau séu enn við leit.

„Við erum á nákvæmlega sama stað og áður. Að rölta upp og hengja upp flyer-a. Það er ekkert nýtt að frétta,“ segir Kristjana Guðjónsdóttir, kona Jóns, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Safna fyrir leitinni

Greint var frá því fyrr í dag að rúm hálf milljón króna hefur safnast í söfnun sem fjölskylda hans hóf í vikunni. Fjölskyldan hefur biðlað til almennings að liðsinna þeim í leitinni að Jóni Þresti sem hvarf sporlaust í Dyflinni.

Sjá einnig: Hálf milljón safnast fyrir Jón Þröst

Kristjana, eða Jana eins og hún er kölluð, er stödd í Dyflinni og stjórnar leitinni að Jóni þar. Hún segir að söfnunin hafi gengið vel og að það hjálpi þeim að sjálfsögðu mikið að fá slíka aðstoð. 

„Það kostað auðvitað alveg heilan helling að vera hérna úti og söfnunin hjálpar alveg gríðarlega með uppihald og annað,“ segir Jana.

Von á fleirum að hjálpa um helgina

Um tíu fjölskyldumeðlimir Jóns hafa ferðast til Írlands til þess að aðstoða við leitina, til að mynda með því að dreifa veggspjöldum með myndum af Jóni. Hún segir að hún eigi von á fleiri ættingjum og vinum þeirra Jóns til Dyflinnar um helgina til að aðstoða við leitina. Hún segir að Írar taki alls staðar vel á móti þeim.

„Alls staðar þar sem við erum að hengja upp flyer-a og annað slíkt er tekið vel á móti okkur og tekið vel í það,“ segir Jana.

Hún segir að stór hópur fólks sem búi í Dyflinni ætli einnig að hjálpa þeim um helgina og vonast til þess að þau nái þá að komast yfir stóran hluta borgarinnar í leit sinni. Eins og staðan er núna eru þau ekki svo mörg þannig þau hafa ekki náð að komast yfir nema ákveðin hluta hennar.

„Við eigum von á stórum hópi um helgina til að hjálpa okkur, ef maðurinn verður ekki fundinn fyrir það. Þá náum við að komast svo lítið vítt,“ segir Jana.

Spurð hvort hún sjái fram á að vera lengi í Dyflinni segir Jana: „Ég fer ekkert heim fyrr en maðurinn finnst.“

Gagnrýna viðbragðsleysi stjórnvalda

Systir og mágkona Jóns hafa gagnrýnt lítil afskipti yfirvalda af máli Jóns,sem þær segja vera einn traustasta mann sem þær hafa kynnst. 

„Áður en maður lendir í þessu þá myndi maður halda að öll björgunarsveitin myndi fljúga og leita. Við erum náttúrulega bara vön þessu æðislega teymi hér á Íslandi, ef einhver týnist þá eru hundrað manns farnir út að leita. Svo dettur maður bara inn í raunveruleikann og fattar að það er engin að sjá um okkur með þetta. Við erum að sjá um þetta sjálf,“ sagði Katrín Björk Birgisdóttir, mágkona Jóns í gær.

Sást síðast í Whitehall

Fjölskylda Jóns hélt út til Dublin í síðustu viku og hefur undanfarna daga unnið að því að hengja upp veggspjöld víða í borginni. Jón Þröstur sást síðast um klukkan 11 á laugar­dags­morgun í Whitehall í Dyflinni. Ekkert hefur spurst til hans síðan. Hann er 41 árs og um 190 sentí­metrar á hæð og eru þeir sem telja sig hafa upp­ýsingar um Jón beðnir um að hafa sam­band við lög­regluna á Ír­landi, en Face­book-síðu hennar má sjá hér fyrir neðan.