Ei­ríkur Val­berg, rann­sóknar­lög­reglu­maður hjá lög­reglunni á Suður­nesjum, hefur kvartað til um­boðs­manns Al­þingis vegna meints mis­ferlis þegar ráðið var í stöðu yfir­lög­reglu­þjóns hjá em­bættinu í mars árið 2019.

Frétta­blaðið hefur kvörtunina undir höndum en Ei­ríkur vildi ekki tjá sig um efni hennar þegar haft var sam­band. Hann stað­festir hins vegar að hafa sent kvörtunina til um­boðs­manns Al­þingis.

Frétta­blaðið greindi frá því í ágúst að Ei­ríkur hefði leitað til lög­manns vegna ráðningar­mála hjá em­bættinu.

Ei­ríkur telur að brotið hafi verið á and­mæla­rétti sínum er nei­kvæð um­sögn Öldu Hrannar Jóhanns­dóttur, yfir­lög­fræðings lög­reglunnar á Suður­nesjum, um hann var tekin gild við hæfnis­matið án hans vitundar.

Alda Hrönn var ekki einn af um­sagnar­aðilum Ei­ríks en fram kemur í kvörtun hans til um­boðs­manns að honum hefði verið til­kynnt að val­nefndin myndi hafa sam­band við fyrri yfir­menn. Ekki var haft sam­band við neinn af þeim um­sagnar­aðilum sem Ei­ríkur til­greindi.

Í rök­stuðningi fyrir kvörtun sinni segir Ei­ríkur að em­bætti lög­reglu­stjórans á Suður­nesjum hafi borið að kynna sér hina nei­kvæðu um­sögn, að eigin frum­kvæði og jafn­framt gefa honum færi á að and­mæla um­sögninni sam­kvæmt reglum um and­mæla­rétt og rann­sóknar­reglu stjórn­sýslu­laga.

Lög­reglu­maður rang­lega sakaður um að þiggja greiðslur

Sam­kvæmt kvörtun Ei­ríks til um­boðs­manns á deila hans við yfir­lög­fræðing em­bættisins sér langan að­draganda en fyrir fimm árum var sam­starfs­maður Ei­ríks hjá fíkni­efna­deild lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu sakaður um að hafa þegið greiðslur frá upp­lýsinga­gjafa lög­reglunnar gegn því að veita upp­lýsingar um störf lög­reglunnar.

„Þessar sakir voru byggðar á þrá­látum orð­rómi og höfðu áður verið teknar til skoðunar af hálfu yfir­manna hjá lög­reglu og kveðnar niður þar sem þær voru taldar til­hæfu­lausar. Þegar á­sakanirnar komu upp á nýjan leik þá tók þá­verandi lög­reglu­stjóri á höfuð­borgar­svæðinu, Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir, á­kvörðun um að flytja um­ræddan sam­starfs­mann til í starfi og síðan veita honum lausn frá em­bætti um stundar­sakir. Veitti þetta á­sökununum byr undir báða vængi. Alda Hrönn Jóhanns­dóttir var á þessum tíma nánasti sam­starfs­maður lög­reglu­stjórans og ráð­gjafi hennar í um­ræddu máli. Undir­ritaður gerði at­huga­semdir við með­ferð lög­reglu­stjóra á mál­efnum þessa sam­starfs­manns. Það hafði síðan al­var­legar af­leiðingar fyrir mig sjálfan og minn starfs­ferill hjá lög­reglunni,“ segir í kvörtun Ei­ríks.

Um­ræddu máli sam­starfs­mannsins lauk fyrir dómi árið 2017 þar sem Hæsti­réttur komst að þeirri niður­stöðu að á­kvörðun lög­reglu­stjóra í máli hans hefði gengið lengra en efni stóðu til og ekki hefði verið lagður við­hlítandi grunnur að þeirri á­kvörðun. Honum voru dæmdar bætur að upp­hæð ein og hálf milljón króna.

Gat ekki tekið þátt í „múg­sefjun“ innan lögreglunnar

Í bréfi sem Ei­ríkur skrifaði yfir­stjórn lög­reglunnar á Suður­nesjum í sumar og Frétta­blaðið hefur einnig undir höndum segir hann að sér hafi verið refsað fyrir að hafa ekki „tekið þátt í þeirri múg­sefjun“ sem átti sér stað innan lög­reglunnar í málinu. „Ég gat ekki, vitandi betur tekið þátt í að saka mann rang­lega um al­var­legt af­brot,“ segir í bréfi Ei­ríks.

Í kvörtun sinni til um­boðs­manns vill Ei­ríkur meina að nei­kvæð um­sögn Öldu sé vegna þess að hann neitaði að taka þátt í á­sökunum gegn sam­starfs­fé­laga sínum.

„Rétt er að geta þess að undir­ritaður [Ei­ríkur Val­berg] hefði haft ærið til­efni til að senda inn and­mæli í til­efni af um­sögninni, þar sem henni er m.a. vísað til af­stöðu sem ég tók í máli fyrrum sam­starfs­manns míns hjá em­bætti lög­reglu­stjórans á höfuð­borgar­svæðinu. Í um­sögn Öldu Hrannar segir m.a.: „Setur spurningar­merki við trygg­lyndi og trúnað vegna á­kveðins at­viks hjá Lög­reglu­stjóra höfuð­borgar­svæðisins. Hann var settur í þannig stöðu að hann tók á­kveðna stöðu með einum án þess að þekkja alla söguna.“ Enn fremur segir: „Finnst hann vera ó­heiðar­legur [...]“ Jafn­framt: „Á eftir að sanna að hann sé góður sam­herji og sannur sam­starfs­maður [...]“ Loks segir: „[...] ekki sam­mála því hvernig hann brást við í á­kveðnu ein­eltis­máli.“

Ei­ríkur telur ljóst að um­sögnin hafi haft veru­lega þýðingu við ráðningar­ferlið. „Sam­kvæmt mats­skýrslunni [...] var meðal­tal mats­þátta 76,2% fyrir þá sem var ráðin í stöðuna en 75,7% fyrir undir­ritaðan og hinn sem metinn var hæfastur. Var þannig ekki mark­tækur munur á stiga­gjöf um­sækj­enda, sem nb. Byggði að miklu leyti á hug­lægri af­stöðu val­nefndar,“ segir í kvörtuninni.

„Eðli málsins sam­kvæmt hlýtur það að hafa á­hrif á á­kvarðana­töku hjá veitingar­valds­hafa þegar um­sagnar­aðili vegna um­sækjanda hefur t.d. sagt að hann sé „ó­heiðar­legur“ og „eigi eftir að sanna að hann sé góður sam­herji,“ skrifar Ei­ríkur.

Fréttablaðið birti ljósmynd af umsögninni í fréttaflutningi sínum af málefnum lögreglunnar á Suðurnesjum í sumar.

Setur spurningar­merki við ráðningar­ferlið í heild

Í kvörtuninni til um­boðs­manns bendir Ei­ríkur á að ekki sé hjá því komist að benda á að öll með­ferð málsins og sam­skipti hans við em­bætti lög­reglu­stjórans á Suður­nesjum í ráðningar­ferlinu hafi mótast af ó­vild ein­stakra aðila í yfir­stjórn em­bættisins við sig, því að hann virtist ekki eiga „upp á pall­borðið hjá við­komandi.“

Helgi Þor­kell Kristjáns­son, mann­auðs­stjóri lög­reglunnar á Suður­nesjum, var einn þriggja sem sátu í val­nefndinni þegar ráðið var í stöðuna.

Í kvörtun Ei­ríks til um­boðs­manns rekur hann ráðningar­ferlið en val­nefndin óskaði eftir kynningar­bréfum um­sækj­enda 29. nóvember 2018. Þann 7. desember sendir Ei­ríkur póst á Helga Þor­kel til að óska eftir upp­lýsingum um hvernig hæfnis­matið færi fram.

„Helgi Þor­kell gat ekki svarað á þeim tíma en svaraði póstinum síðan þann 3. janúar 2019 á þá leið að það væri ekki hægt að veita um­beðnar upp­lýsingar fyrr en að ráðningar­ferlinu loknu,“ segir í kvörtun Ei­ríks.

Fékk 24 tíma til að fljúga á milli landa og leysa verk­efni

Að kvöldi mánu­dags 7. janúar hringdi Helgi Þor­kell í Ei­rík til að boða hann í við­tal „á mið­viku­daginn“ en hann var starfaði í Bret­landi á þeim tíma. Í kvörtun sinni segir Ei­ríkur að hans skilningur hafi verið sá að ræða mið­viku­daginn í vikunni á eftir.

„Mér fannst fyrir­varinn stuttur en m.v. þær upp­lýsingar sem ég fékk í sím­talinu var þetta eini tíminn sem var í boði fyrir við­tal og ef ég kæmist ekki myndi ég ekki komast lengra í ráðningar­ferlinu. Ég svaraði á þá leið að ég myndi ræða við yfir­mann minn daginn eftir til að at­huga hvort ég fengi frí frá störfum mínum í Bret­landi. Þegar ég hafði fengið frí og látið Helga Þor­kel vita að ég kæmist til við­tals í vikunni þar á eftir, kom í ljós að hann [Helgi] átti við mið­viku­daginn 9. janúar 2019, þ.e. eftir c.a. 24 klst. Ég varð því að fá frí frá störfum með enn styttri fyrir­vara, bóka flug, koma mér heim úr vinnu (50 mín. akstur) pakka í tösku, taka leigu­bif­reið á He­at­hrow flug­völl við London (2 klst.) og fljúga til Ís­lands,“ skrifar Ei­ríkur til um­boðs­manns.

Í milli­tíðinni, kl. 13:24 þann 8. janúar 2019, fékk Ei­ríkur sent verk­efni sem val­nefndin óskaði eftir að um­sækj­endur myndu vinna og koma með úr­lausnina í við­talið daginn eftir. Rúmur tveimur tímum seinna sama dag barst leið­rétt verk­efni þar sem fyrra verk­efni reyndist gallað.

Ei­ríkur skrifar að lokum í kvörtun sinni að hægt sé að draga í efa hvort jafn­ræðis­reglu stjórn­sýslu­laga hafi verið fylgt í ráðningar­ferlinu í heild sinni áður en hann óskar eftir því að um­boðs­maður Al­þingis taki mál hans til með­ferðar.