Leitarsvæðið að flugvélinni sem ekkert hefur spurst til síðan í gær var stækkað í morgun en þó hefur mestur þungi verið settur í leit við sunnanvert Þingvallavatn í morgun. Landhelgisgæsla, lögreglan og björgunasveitir eru við leit á landi, við Þingvallavatn og á því.
Hér að neðan má sjá myndskeið af vettvangi en þyrla Landhelgisgæslunnar hefur flogið yfir vatnið í morgun auk þess sem bátar hefur verið út á bátum.
Enn leitað af fullum krafti
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Fréttablaðið að enn sé leitað af fullum krafti.
„Frá því snemma í morgun. Það fóru hópar í hvíld um klukkan fjögur í nótt og þá fóru hópar með ferskum leitarmönnum á vettvang víða af landinu. Leitin hófst aftur klukkan átta og gengur vel,“ segir Davíð.
Hann segir að enn sé unnið eftir svipuðum upplýsingum og í gær en svo hafi frekari vísbendingar borist í morgun, eins og greint hefur verið frá, sem styrktu viðbragðsaðila í þeirri trú að svæðið í kringum sunnanvert Þingvallavatn og Úlfljótsvatn væri svæði sem væri gott að einbeita sér að.
„Það var bætt við bátum í morgun frá Landhelgisgæslunni, ríkislögreglustjóra og björgunarsveit. Markmiðið núna er að leita á þessum svæðum sem eru líkleg, extra vel. Sumum svæðum leitum við aftur á. Það er verið að leita við vatnið og á vatni,“ segir Davíð.
Á myndum af vettvangi má sjá að ýmis búnaður er notaður eins og bátar, þyrla og drónar. Fleiri myndir af vettvangi má sjá hér að neðan.
„Það er mikill þungi og enn leitað víða. Í morgun var svæðið stækkað og leitin færðist víðar. Það eru enn margir að leita en með framvindunni og betri upplýsingum styrkjast menn í einhverri trú um hvar menn ætla að leggja höfuðþungann í leitina,“ segir Davíð Már að lokum.




