Leitar­svæðið að flug­vélinni sem ekkert hefur spurst til síðan í gær var stækkað í morgun en þó hefur mestur þungi verið settur í leit við sunnan­vert Þing­valla­vatn í morgun. Landhelgisgæsla, lögreglan og björgunasveitir eru við leit á landi, við Þingvallavatn og á því.

Hér að neðan má sjá myndskeið af vettvangi en þyrla Landhelgisgæslunnar hefur flogið yfir vatnið í morgun auk þess sem bátar hefur verið út á bátum.

Enn leitað af fullum krafti

Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að enn sé leitað af fullum krafti.

„Frá því snemma í morgun. Það fóru hópar í hvíld um klukkan fjögur í nótt og þá fóru hópar með ferskum leitar­mönnum á vett­vang víða af landinu. Leitin hófst aftur klukkan átta og gengur vel,“ segir Davíð.

Hann segir að enn sé unnið eftir svipuðum upp­lýsingum og í gær en svo hafi frekari vís­bendingar borist í morgun, eins og greint hefur verið frá, sem styrktu við­bragðs­aðila í þeirri trú að svæðið í kringum sunnan­vert Þing­valla­vatn og Úlf­ljóts­vatn væri svæði sem væri gott að ein­beita sér að.

„Það var bætt við bátum í morgun frá Land­helgis­gæslunni, ríkis­lög­reglu­stjóra og björgunar­sveit. Mark­miðið núna er að leita á þessum svæðum sem eru lík­leg, extra vel. Sumum svæðum leitum við aftur á. Það er verið að leita við vatnið og á vatni,“ segir Davíð.

Á myndum af vett­vangi má sjá að ýmis búnaður er notaður eins og bátar, þyrla og drónar. Fleiri myndir af vett­vangi má sjá hér að neðan.

„Það er mikill þungi og enn leitað víða. Í morgun var svæðið stækkað og leitin færðist víðar. Það eru enn margir að leita en með fram­vindunni og betri upp­lýsingum styrkjast menn í ein­hverri trú um hvar menn ætla að leggja höfuð­þungann í leitina,“ segir Davíð Már að lokum.

Drónar eru notaðir við leitina.
Fréttablaðið/Anton Brink
Mikil samhæfing er á milli ólíkra aðila sem koma að leitinni.
Fréttablaðið/Anton Brink
Fjölmargir hafa komið að leitinni í gær og í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Mestur þungi er nú lagður í leit við vatnið.
Fréttablaðið/Anton Brink