Að­gerðar­stjórn á vett­vangi við Núpá í Sölva­dal í Eyja­firði hefur tekið á­kvörðun um að draga úr leit í ánni sjálfri í nótt að piltinum sem féll þar ofan í gær­kvöldi. Hins vegar verða við­brags­aðilar á­fram við leitar­störf við ánna í nótt og verður leit á­fram­haldið í fyrra­málið af fullum krafti, þegar út­lit er fyrir betra veður til leitar. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á Norður­landi eystra.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá eru að­stæður til leitar gríðar­lega hættu­legar. Björgunar­sveitir og aðrir við­brags­aðilar hafa verið á svæðinu við leit frá því í gær­kvöldi og nutu meðal annars lið­sinnis danska flug­hersins sem flaug með búnað og fleiri við­brags­aðila á vett­vang í dag.

Í til­kynningu lög­reglunnar kemur fram að 50-60 björgunar­aðilar hafi verið við störf hverju sinni á vett­vangi og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt eftir því sem fleiri björgunar­sveitir hafa mætt á svæðið. Með að­stoðar danska flug­hersins jókst styrkurinn til leitarinnar um 41 mann og þá var þörf á sér­hæfðum búnaði og sér­hæfðum leitar­mönnum til að skipta út fyrir þá sem höfðu staðið vaktina við hin ýmsu störf.

Þannig hafa alls tvö­hundruð við­brags­aðilar komið beint eða ó­beint að leitinni í dag. Kemur fram eins og áður segir að að­stæður séu mjög krefjandi og lé­legt skyggni á köflum. Vakta þarf ánna að hluta því áin hleður upp krapa sem getur síðan runnið af stað með stuttum fyrir­vara og þar með eykst straumurinn í ánni yfir það svæði sem leitað er á. Slíkt hafi gerst í eitt skipti rétt fyrir klukkan 18:00 en góð við­brögð og við­varanir urðu til þess að ekki hlaust slys af.

Búist er við því að betra veður verði á morgun til leitar, eins og áður hefur komið fram.