Leit að manni, sem talinn er hafa ekið bíl sínum út í Ölfusá seint í gærkvöldi, hefur engan árangur borið. Um er að ræða karlmann á sextugsaldri sem er búsettur á Selfossi. Á sjöunda tug er nú að leita við ánna, bæði á bátum og með fram ánni. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er maðurinn fæddur árið 1968 og er búsettur á Selfossi. Talið er að hann hafi ekið bíl sínum í ánna um 22:00 í gær. Verði hann ekki fundinn í dag verður leit haldið áfram á morgun.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við Fréttablaðið að enn sé að bætast í hóp leitarmanna og farið verður yfir svæðið allt í tvígang. „Það verður leitað fram að myrkri og svo verður staðan metin eftir það,“ segir Oddur. Veðurskilyrði á svæðinu eru ekki með besta móti, en gul veðurviðvörun er í gildi á Suðurlandi í dag. 

Oddur segir enn vera heldur hvasst og rigningu við Ölfusá, en veður fari batnandi. Þá er íshröngl í ánni sem er gruggug og vatn fer að aukast í henni. Aðspurður segir hann lögreglu og björgunarsveitir fylgja vel smurðri aðgerðaráætlun við leitina sem miði vel áfram.